Hvað get ég gert til að fá hvítari tennur?

Spurning:

Sæll.

Ég var að velta því fyrir mér hvað væri að gera til að gera tennurnar örlítið hvítari. Ég er of ungur og ekki með það gular tennur að ég þurfi á læknishjálp að halda og ég hef heldur engann áhuga á því að vera með gervilega hvítt bros. En samt aðeins hvítara …

Fyrir utan burstun 2svar á dag og það að nota tannþráð, hef ég heyrt að fólk hafi burstað tennurnar með matarsóda (natríum carbonat) við góðan árangur. Einnig stendur á sumum tannkremstúpum „with baking soda". Mig langar að spyrja hvaða áhrif hefur natríum Carbonat á tennur? Eru til einhver önnur ráð úr eldhúsinu?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæll.

Á margan hátt má bæta lit tanna. Mjög er mismunandi hvað hentar í hverju tilviki og því mismunandi að farið og árangurinn kann að vera misvaranlegur.

Stundum kemur í ljós við nánari athugun að aflitun tannanna stafar af ytri litun sem er kominn til af slælegum þrifum og/eða litsterkum efnum svo sem kaffi, te og tóbaki. Þá má fá tennurnar þrifnar á stofu tannlæknis og reyna síðan að halda árangrinum við með reglulegri tannhirðu með þar til gerðum áhöldum (bursta og tannþræði) og viðeigandi hreinsiefnum (tannkremi).

Í sumum tilvikum stafar aflitunin af innri lit, meðfæddum í kjölfar sjúkdóma eða áunnum við áverka eða lyfjaneyslu. Sé liturinn bundinn við ysta lag glerungs má oft einfaldlega slípa hann í burtu. Í öðrum tilvikum nær liturinn svo djúpt að nauðsynlegt reynist að fjarlægja stóran hluta tannarinnar og ljúka síðan með fyllingu eða áfellu eða jafnvel hylja tönnina alla með gull-postulínskrónu.

Um sinn mun vera hvað vinsælast að bleikja tennur með aðstoð tannlæknis og þar til gerðum efnum og útbúnaði sem notuð eru heima við. Ekki hentar það þó öllum frekar en annað. Einnig fást tegundir tannkrems sem öðrum fremur eiga að vera þénug til þess að ná fram ljósum lit á tönnum og halda honum við. Mjög er mismunandi hvað svarfefni þeirra eru gróf og slítandi og því rétt að fá tannlækni til þess að fylgjast vel með.

Baking soda, sodium bicarbonate, natríum bíkarbonat og matarsódi er eitt og hið sama sem mikið var, og er lítið eitt enn, notað sem svarf- eða fægiefni í tannkrem – afar bragðillt efni.

Gangi þér vel,
Ólafur Höskuldsson, tannlæknir