Hvað get ég gert varðandi sinadrátt?

Spurning:
Góðan daginn!
Ég stunda íþróttir 3-5 sinnum í viku. Ég teygi eftir æfingar. Á sumrin stunda ég kajakróður en hef ekki getað notið þess til fulls vegna þess að ég fæ fljótt náladofa. Annað og mögulega óskylt mál er að nú í vetur hef ég oft vaknað með ákveðinn stífleika í leggjunum, eins og ég sé alveg við það að fá sinadrátt (og hef stundum vaknað með sinadrátt). Vöðvarnir aftan á legg, f. neðan hné eru þá nokkuð aumir. Ég finn að ef ég leyfi mér að teygja úr mér (rétta úr ristinni) þá muni ég fá sinadrátt. Það virðist ekki skipta máli hvort ég hef hreyft mig mikið eða lítið daginn á undan. Hvað veldur þessu og hvað er til ráða?

Svar:

Sæl.

Varðandi náladofann dettur mér helst í hug að þú haldir það fast um árina að vöðvarnir þrýsti á ákveðna taug sem leiðir út í hendi. Athugaðu stöðuna á úlnliðunum hvort þú sért hugsanlega alltaf með þá beygða í stað þess að hafa þá í miðstöðu. Láttu þá sem þekkja til kajakróðurs yfirfæra stöðuna á úlnliðunum hjá þér.

Hvað varðar sinadráttinn, lýsir þú dæmigerðum stellingum sem geta komið af stað sinadrætti þ.e. þegar þú teygir úr ristunum og að hann geti komið fram í svefni. Sennilega færðu sinadráttinn í svefni þegar þú hefur legið lengi í slíkri stöðu að teygst hefur á ristinni (t.d. þegar maður liggur í magalegu eða læstri hliðarlegu).

Ekki er vitað með vissu hvað orsakar sinadrátt. Margar tilgátur og skýringar hafa þó verið settar fram. Allir geta fengið þetta einhvern tíma á ævinni, en algengast er að íþróttafólk og konur á meðgöngu fái sinadrátt í auknum mæli. Íþróttamenn fá hann ýmist meðan á þjálfun stendur eða eftir kröftuga þjálfun. Sinadrátturinn kemur helst fram þegar vöðvinn (oftast kálfavöðvinn) er í fullri styttingu. Ef vökvatap verður mikið við þjálfun verður til saltskortur. Passa verður uppá að drekka ekki eingöngu vatn til að ná upp vökvatapinu, heldur fá einnig í sig salt. Minnkað blóðflæði og þar með mjólkursýruuppsöfnun í vöðvunum framkalla sinadráttinn að einhverju leyti. Þetta getur orsakast af stöðugri langvarandi spennu í vöðvum eða jafnvel ef fatnaður þrengir að, svo sem þröngir hnésokkar.

Talið er að kalk, magnesium og C-vítamín geti jafnvel minnkað sinadrátt, en besta ráðið er að teygja viðkomandi vöðva hægt, vel og lengi. Best er að teygja bæði fyrir og eftir áreynslu og reyndu að forðast að ofreyna þig. Heitt bað, ökklaæfingar þar sem þú pumpar blóðrásina og kálfateygjur eru til bóta fyrir svefn. Ef sinadráttur er kominn er best að spenna gagnstæðan vöðva meðan á krampanum stendur. Ef um kálfavöðva er að ræða reynir þú að kreppa ristina (90°beygja á ökkla) með bogið hné. Ennþá betra er ef einhver getur gefið þér mótstöðu þegar þú kreppir ristina uppávið og heldur við kálfavöðvann með flötum lófa og léttum þrýstingi.

Ef ekkert af þessu dugar ættir þú að leita til læknis sem metur hvort grípa þurfi til lyfjameðferðar.

Gangi þér vel,

Erna Kristjánsdóttir, sjúkraþjálfari í Styrk.