Hvað getur orsakað þessi hræðsluköst?

Spurning:
14 mánaða dóttir mín fær svo mikil hræðsluköst þegar dyr lokast á herberginu sem hún er í, er það eðlilegt eða hefur eitthvað komið fyrir hana sem orsakar þessa hræðslu? Þetta gerist hvort sem hún er ein eða einhver er með henni í herberginu. Ég hef staðið hana að því að vakta hurðir með skelfingarsvip í ótta um að hún lokist, þó herbergið sé fullt af fólki. Systir hennar lætur ekki svona nema hún loki sig ein inni einhversstaðar. Á nóttunni sofa þær með lokaðar dyr og þá er allt í lagi. Hvað orsakar þetta og hvernig get ég hjálpað henni að komast yfir þetta?

Svar:

Börn ganga yfirleitt í gegn um tímabil þar sem þau óttast ákveðnar aðstæður. Á þessum aldri eru börn oft sjúklega hrædd við aðskilnað frá foreldrum. Börn geta jafnvel orðið skelfingu lostin þegar eitthvað fer fyrir sjónlínu barnsins og foreldra þess. Líklegast er að dóttir þín jafni sig á þessu með tímanum. Orsökin af þessari hræðslu er bæði partur af eðlilegri þróun barnsins en einnig gæti eitthvað sérstakt atvik hafa stuðlað að þessari hræðslu. Dóttir þín getur til dæmis einhverntíman hafa lokast inni og ekki komist út. Hún gæti þess vegna hafa lokast inni með einhverju sem hún er hrædd við og þess vegna ekki sloppið frá því. Kannski er það þess vegna sem hún er hrædd þótt einhver er hjá henni. Hún gæti verið hrædd við að komast ekki úr aðstæðum í stað þess að vera ein í lokuðu herbergi. Þetta atvik gæti hafa verið smávægilegt í þínum huga en orsök mikillar hræðslu hjá dóttur þinni. það sem þú getur gert í þessum aðstæðum er að veita henni það öryggi sem hún greinilega þarf. Einnig skaltu prófa að loka ekki hurðinni þegar hún sefur. Það getur stuðlað að óöryggi hjá henni, til dæmis ef hún vaknar upp um nótt og sér að hurðin er lokuð. Gott er að hafa ljós í gangi fyrir framan herbergið hennar meðan hún sefur. Dóttir þín er það ung að líklegast er að hún hætti smátt og smátt að hugsa um þetta. Ef vandamálið eykst hins vegar með aldrinum þá þarftu að leita þér aðstoðar sérfræðings.

Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson
Sálfræðingur
Laugavegi 43
S:661-9068