Hvað telst vera eðlilegt sökk í blóði og hvað veldur of háu sökki?

Spurning:
Sæl.
Mig langar að vita hvað telst vera eðlilegt sökk í blóði og hvað veldur of háu sökki?

 

Svar:

Þakka fyrirspurnina.

Sökk segir til um hve hratt rauð blóðkorn sökkva í blóðvökva (plasma) á ákveðinni tímaeiningu (mm/klst). Margir þættir hafa áhrif á sökkið svo sem stærð rauðra blóðkorna og samsetning blóðsins. Sökk hækkar við ákveðna sjúkdóma svo sem bólgusjúkdóma. Það hækkar hægt og það tekur einnig nokkrun tíma að lækka niður í eðlilegt gildi. Það er því ekki góð mæling í bráðasjúkdómum en er gagnlegt til að fylgjast með virkni langvarandi bólguástands af ýmsum orsökum svo sem iktsýki. Rannsókn þessi er mjög ósértæk, en mæling á sökki gefur ákveðnar vísbendingar sem þarf að túlka í samhengi við önnur einkenni.

Eðlilegt sökk hjá konum er talið vera 0-20 mm/klst og hjá körlum 0-15 mm/klst undir 50 ára aldri, mörkin hækka lítið eitt með aldri.

Kveðja
Erla Sveinsdóttir, læknir