Hvaða matur stuðlar að betri líkamslykt?

Spurning:

Halló

Ég hef áhuga á að fá að vita hvaða mat maður getur borðað til að fá góða líkamslykt (þá meina ég af svita og kynfærum og þannig), geta t.d. sætindi gefið góða lykt? Og eins hvaða matur gefur slæma lykt, t.d hvort koffín hafi slæm áhrif á lyktarkirtlana. Er mögulegt að ef maður fari oft í sturtu að líkaminn hætti að framleiða sína eðlilegu lykt?

Fyrirfram þakkir,
kveðja,

Svar:

Líkaminn notar svita sér til hjálpar við svitastjórnun og er okkur því mikilvægt að svitna. Líkamssviti frá hvaða svæði sem hann kemur er lyktarlaus. Á húð okkar allra eru hinsvegar við eðlilegar aðstæður bakteríur sem þegar við svitnum framleiða efni sem valda þeirri lykt sem í daglegu tali kallast “svitalykt”. Hversu mikið einstaklingur svitnar er háð líkamsyfirborði, og því er mikilvægt að vera sem næst kjörþyngd, því eftir því sem einstaklingur er feitari því meiri úrgangsefni þarf hann að losa. Í svitanum eru ýmis úrgangsefni þ.á.m. úr þeirri fæðu sem við neytum og getur það því haft áhrif á hver lyktin er. Ýmis efni í matvælum eru þekkt að því að gera svitalykt verri s.s. hvítlaukur, áfengi og ýmsar kryddjurtir, en ekki veit ég til að séu til nein matvæli sem gera líkamslykt betri eða góða. Það sem er hinsvegar mikilvægast til að lykta vel er hreinlæti, þvo sér daglega og einnig hjálpar að nota svitalyktareyðandi efni sem er hægt að kaupa í flestum matvöruverslunum og apótekum. Vonandi ertu einhverju nær um líkamslykt.

Kveðjur,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir