Hver er hámarkspúls við æfingar?

Spurning:

Sæl.

Ég er 38 ára gamall, 186 sm á hæð og um 100 Kg.

Undanfarna 6 mánuði hef ég verið að létta mig og náð mér niður um 10 Kg. Ég hef aðalega hreyft mig og lagað matarræðið lítilega.

Spurning mín varðar hámarkpúls, ég er með ágætan hvíldarpúls um 50 slög en þegar ég skokka (5 km) þá fer ég upp í 180 slög og jafnvel um og yfir 200 slög (séð 220). Nú veit ég að púlsinn getur mjög misjafn hjá mönnum en hvað veldur svona háum púls og er hann fullkomlega eðlilegur.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæll.

Púls manna er eins og þú segir réttilega sjálfur afar einstaklingsbundinn. Þumalputtareglan er að hámarkspúls er 220 – lífaldur svo þinn hámarkspúls er þá skv. því 182. Annar mikilvægur mælikvarði er líðan þín. Ef þér líður ekki illa þegar þú skokkar og þú getur haldið uppi samræðum án þess að standa á öndinni ætti þetta að vera í lagi. Þú nefnir ekki hvort þú sért að nota púlsmæli eða hvort þú ert sjálfur að telja slög. Ég geri ráð fyrir að þú notir púlsmælir því talning getur verið ónákvæm. Það getur verið fullkomlega eðlilegt að fara svona hátt í púls, þetta er jú mælikvarðinn á því hve hjartað þitt þarf að dæla hratt blóðinu og ef þú ert í mikilli áreynslu þarf hjartavöðvinn að dæla ört. Lykilatriði er að þú hlustir á líkamann og farir eftir líðan frekar en töflum og tölum. Þú getur leitað þér frekari upplýsinga á síðunni www.polar.fi þar er að finna upplýsingar um hjartsláttartíðni við æfingar.
Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari