Hverjir eru kostir og ókostir Trimform?

Spurning:

Mig
langar til að fræðast um TrimForm, gagnsemi þess og hugsanlega
ókosti. Hafa verið
gerðar einhverjar marktækar rannsóknir á því?

Með
fyrirfram þökk.

Svar:

Trimform,
Slendertone, Strata 1.2.3. og Eurowave eru svokallaðar rafleiðnimeðferðir.
Rafleiðnimeðferð getur vissulega haft miklu hlutverki að gegna þegar
um endurhæfingu fatlaðra einstaklinga er að ræða enda var þessi
meðferð upphaflega fundin upp í þeim tilgangi. Þá er hægt að
örva vöðva sem viðkomandi getur ekki þjálfað vegna fötlunar
sinnar. Stækkun á vöðvum er hinsvegar óveruleg eða engin. Sem
leið til fitubrennslu er rafleiðnimeðferð nánast gagnslaus. Ástæðan
fyrir því að fólk missir einhverja sentimetra eftir einn tíma
getur tengst tilfærslu vatns í líkamanum. Í þeim tilfellum sem fólk,
sem gengist hefur undir slíka meðferð, hefur grennst töluvert er
ástæðan sú að samhliða rafleiðnimeðferðinni hefur verið
dregið úr hitaeininganeyslu.
Þegar
markmiðið er að styrkja vöðva og brenna fitu er eina raunhæfa
leiðin að stunda reglubundna hreyfingu og gæta hófs í
matarneyslu.

Kveðja,
Ágústa Johnson