Hvernig aðstoðar maður aðstandenda úr þunglyndi?

Spurning:
Sæl!
Þannig er mál með vexti að maðurinn minn er þunglyndur. Hann á erfitt með að hafa stjórn á skapi sínu og þegar hann reiðist þá verður hann orðljótur og ógnandi. Hann hefur verið á zoloft af og til en hættir alltaf að taka það inn með vissu millibili og þá verður stundum erfitt að umgangast hann. Við eigum 4 börn og af þeim er eitt með AMO á háu stigi og þunglyndi (er á lyfjum). Ef maðurinn minn er ekki að taka lyfin sín þá gengur honum mjög erfiðlega að umgangast börnin sín af þolinmæði og missir oft stjórn á skapi sínu við þau, sérstaklega það ofvirka. Ég er gjörsamlega ráðþrota um hvernig ég eigi að koma fram við manninn undir þessum kringumstæðum. Einnig finnst mér mjög erfitt að horfa uppá manninn sem ég elska svo viðkvæman og hræddan sem hann stundum verður þannig að hann hreinlega finni til. ég veit ekki hvernig ég á að hjálpa honum og spyr því hvort einhvers staðar sé hægt að leita upplýsinga um hvernig maður aðstoðar aðstandenda úr þunglyndi og eins hvort til séu einhverjir hópar aðstandenda þunglyndra sem hottast og deila með sér reynslu. Vinsamlega hjálpið mér að hjálpa honum því annars er ég hrædd um að öll fjölskyldan hljóti alvarlegan skaða af.

Svar:
Sæl,

Ég skil vel að þetta sé erfitt ástand og að þú þurfir stuðning. Hér hjá Geðhjálp eru starfandi stuðningshópar aðstandenda sem þú gætir sett þig í samband við. Einnig er starfandi innan vébanda Geðhjálpar ,,Félag foreldra og áhugafólks um geðraskanir barna og unglinga” www.barnaged.is. Ef maðurinn þinn getur sjálfur hugsað sér að taka þátt í sjálfshjálparhópi fyrir fólk með þunglyndi, þá hittist slíkur hópur vikulega á fimmtudögum kl. 17.30 í húsi Geðhjálpar að Túngötu 7.

Ekki hika við að hafa samband við okkur hjá Geðhjálp, s: 570 1700 ef þú vilt fá frekari upplýsingar.

Með kærri kveðju,

Guðbjörg Daníelsdóttir, sálfræðingur hjá Geðhjálp.