Hvernig dó frændi minn?

Spurning:
Bróðir minn féll fyrir eigin hendi. Nú eru um 15 ár síðan. Ég er aðeins eldri en bróðir minn heitinn og á orðið börn. Hvernig er best að segja dóttur minni frá örlögum frænda síns? Hún spyr mikið af hverju þessi ungi frændi hennar, sem hún sér allsstaðar á myndum, sé ekki á meðal vor. Það er auðvelt að segja að hann sé dáinn en þegar spurt er hvernig hann dó verður fátt um svör. Hvernig er best að skýra þetta út? Þessi dóttir mín er með þennan frænda sinn á heilanum og er sífellt að teikna myndir og skrifa kveðjur.

Með fyrirfram þökk.

Svar:
Því miður eiga fræðin ekki einhlítt svar við spurningu þinni. Persónuleiki barna, líkt og fullorðinna, er mjög misjafn. Sumir gætu tekið svona mál mjög inn á sig og velt sér upp úr þeim sér til skaða á meðan aðrir gætu látið staðar numið þegar sannleikurinn er fenginn. Svo eru enn aðrir sem gætu velt sér upp úr þessu og það orðið þeim til góðs. Þroski barna líka mjög mismunandi á þessum aldri. Þriðja breytan sem getur skipt sköpum í svona máli er uppeldið. Hvernig eruð þið vön að ræða við barnið? Þú verður að treysta eigin dómgreind í þessu máli. Þú þekkir barnið þitt best. Í fljótu bragði sé ég þó ekki ástæðu til að nefna sjálfsmorð sem skýringu. Það má segja að bróðir þinn hafi verið veikur í höfðinu. Það er ekki allur sannleikurinn en má til sanns vegar færa. Ef dóttir þín er mjög upptekin af dauðanum getur það verið hluti af þroskaferli hennar en gæti líka bent til þess að eitthvað sé að naga hana. Þú ættir að athuga hvort það er boðið upp á listmeðferð í skólanum hennar. Ef svo heppilega vill til að það er listmeðferðarfræðingur í skólanum geturðu kannski komið henni að hjá honum og bent honum á að skoða þessi mál með dótturinni.

Gangi þér vel
Reynir Harðarson sálfræðingur
S: 562-8565