Hvernig er gigt greind?

Spurning:

Mig langar að vita hvort að það sé hægt að greina gigt með blóðprufu eða hvernig hún sé greind.

Svar:

Takk fyrir fyrirspurnina.

Gigt er stór sjúkdómaflokkur og mismunandi greiningaraðferðir hæfa hinum ólíku sjúkdómum sem falla undir þennan flokk. Almennnt gildir að saga sjúkdómseinkenna og skoðun læknis byggir grunninn að sjúkdómgreiningu. Sum einkenni eru dæmigerð fyrir ákveðna tegund gigtar á meðan önnur einkenni eru ósérhæfð og geta átt við marga sjúkdóma. Rannsóknir svo sem blóðprufur eru notaðar til að styðja sjúkdómgreiningu og einnig til að útiloka aðra sjúkdóma sem geta sýnt svipuð einkenni. Til eru blóðpróf sem eru sérhæfð fyrir suma gigtarsjúkdóma og því hægt að nota til greiningar á meðan við aðra sjúkdóma svo sem vefjagigt eru ekki til neinar sérhæfðar rannsóknaraðferðir og sjúkdómsgreiningin því byggð á ákveðnum einkennum og sem læknir finnur við skoðun. Blóðrannsóknir eru einnig í sumum tilvikum gagnlegar til að fylgjst með gangi gigtarsjúkdóma. Fyrsta skrefið til að greina hvort um gigt sé að ræða er því að snúa sér til heimilislæknisins sem metur einkenni og hvort gera þrufi frekari rannsóknir.

Með von um að þetta svari spurningu þinni.

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir.