Hvernig er grindarmæling framkvæmd?

Spurning:

Sæl.

Ég á von á mínu þriðja barni. Fyrri fæðingar gengu ekki nógu vel og nú er ég á leið í grindarmælingu. Hvernig er það framkvæmt?

Kær kveðja.

Svar:

Sæl.

Grindarmæling er gerð með röntgenmyndatöku. Tekin er mynd undir og ofan í mjaðmagrindina þannig að beinabygging hennar sést. Síðan eru myndirnar skoðaðar og mælt hve víð mjaðmagrindin er, bæði inngangurinn ofan í hana og útgangurinn úr henni. Þannig sést hvort hún er nógu stór til að barn komist í gegn um hana.

Rannsóknin er talin skaðlaus móður og barni og ekki fylgir henni neinn sársauki, en þar sem konan þarf að liggja á bakinu getur hún fengið yfirliðatilfinningu þegar legið liggur á stóru æðunum. Þetta tekur stutta stund og á eftir má hagræða sér, en láttu endilega vita ef þér líður illa. Konan þarf ekki að afklæðast undirfatnaði en æskilegt er að vera í bómullarnærbuxum, þær trufla myndatökuna minnst. Merkt er fyrir með tússi á nærbuxurnar hvar geislinn á að koma svo það er vissara að vera ekki í nærbuxum sem manni er annt um.

Það eru skiptar skoðanir á því hvort grindarmælingar séu vænlegur kostur því þær segja manni ekki nóg til að ákvarða hvort kona getur fætt barn eða ekki, nema í mjög afgerandi tilvikum.

Vona að þetta svari því sem þú þarft að vita.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir