Hvernig losna ég við fimm síðustu aukakílóin?

Spurning:

Kæra Ágústa.

Ég er ein af þeim sem er að reyna að losna við síðustu fimm kílóin. Ég hreyfi mig mjög mikið (aðallega af því mér finnst það gaman) og svo hugsa ég um mataræðið.

Flesta daga gengur mér vel, er að borða 1500-1700 kkal 5-6 litlar og hollar máltíðir fullt af vatni o.s.frv. Gallinn er þessir „nammidagar" en þeir fara alltaf út í öfgar! Þá á ég létt með að gleypa hálfa pizzu með auka osti, snakk, 2 súkkulaðistykki ofl. bara á einu kvöldi (svona yfir videómynd).

Þessir nammidagar eru að vísu ekki skipulagðir eins og í „Líkami fyrir lífið" prógramminu, en þegar ég er kannski búin að hafa 5 holla daga og pöntuð er pizza í kvöldmatinn, þá „sleppi ég mér" og leyfi mér allt, kannski svipað og helgaralki sem getur ekki stoppað eftir fyrsta glasið? Þetta gerist kannski 2 sinnum í viku. Hvað get ég gert? Ég er 22 ára og er aðeins of þung (165cm, 62kg).

Fyrir nokkrum árum var ég með „búlimíu á köflum" í ca 3 ár, en losnaði úr þeim vítahring með hjálp vinar, og vil aldrei lenda í því aftur og þess vegna vil ég fyrst og fremst koma fullkomnu jafnvægi á mataræði mitt, svo það sé lífsstíll. Samt verð ég að leyfa mér óhollustukvöld af og til, það þýðir ekki að segja við mig: „farðu bara í göngutúr eða sund, lakkaðu á þér neglurnar.." eða eitthvað svoleiðis, eins og sagt er við þá sem borða mikið þegar þeim leiðist.

Mér finnst nammi gott og mun alltaf finnast. En hvað get ég gert til að finna jafnvægið? Og grennast í leiðinni? Ég er alveg ringluð í þessu öllu saman!

Svo er það annað, ég heyrði eitt sinn að það fari eftir hversu mikil áreynslan sé, hversu mikil brensslan er (mikil áreynsla=kolvetnisbrennsla. lítil áreynsla=fitubrennsla) og í tímum eins og tæbó sé maður lítið annað að gera en að þreyta líkamann, því maður sé á svo háum púls allan tímann. þetta sagði mér reyndur, fullorðinn þjálfari. Vonandi er þetta rugl, ég fer í tæbó 3 sinnum í viku, og tek verulega á. Hvernig virkar þetta? Get ég verið að brenna bara vöðvunum en ekki fitunni? Eins og ég sagði, þá æfi ég mikið og vil alls ekki minnka það. (útrás og skemmtun, sem ég vil halda) en nú næ ég ekki að losna við þessi fimm kíló, sem ég vil endilega losna við.

Hvað get ég gert?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Þú getur verið alveg róleg, líkaminn brennir fitu við mikla áreynslu og það er fjarri lagi að þú sért aðeins að gera þér slæmt með því að æfa tæ-bó. Haltu bara áfram að æfa af krafti. Því meira sem þú reynir á þig því fleiri hitaeiningum brennir líkami þinn. Auk þess er góð styrking í tæ-bó æfingum og það eykur grunnbrennslu þína sem þýðir að þú brennir fleiri hitaeiningum á sólarhring.

En með þessa nammidaga þína. Það ráð sem ég get gefið þér er það sem ég nota á sjálfa mig því ég er einmitt ein af þeim sem finnst súkkulaði hrikalega gott 🙂 Það sem þú þarft að tileinka þér smám saman er það að það er jafngott að fá sér tvo-þrjá bita af súkkulaði og tvö heil stykki. Það er auðvitað betra að fá sér aðeins 2-3 bita því þá færðu góða bragðið og „kikkið" en ekki allar hitaeiningarnar. Trúðu mér, þetta er eina leiðin til að láta eftir sér að gæða sér á „namminu" án þess að innbyrða allar þessar hitaeiningar. Það tekur smá tíma og sjálfsaga að venja sig á þetta, en með því að segja við sjálfa þig, nú er ég búin að smakka, restin bragðast alveg eins og mig langar ekki að fá fleiri hitaeiningar ofan í mig. Hvort langar mig meira að losna við þessi 5 kg eða að gleypa allt súkkulaðið og langa svo jafn mikið í annað eftir smástund. Þetta snýst um sjálfsagann á meðan maður er að venja líkamann af sykurfíkninni og temja sér breyttar neysluvenjur. Það verða alltaf endalausar freistingar á vegi manns og nauðsynlegt að hafa sjálfsagann í lagi am.k. þar til við höfum skapað okkur nýjar venjur.

Það gæti líka verið leið fyrir þig að fá þér pínulítið „nammi" oftar en 1x í viku því þú virðist byggja upp svo sterka löngun í það og þá eru meiri líkur á að þú „sleppir þér". En mundu: Allt er gott í hófi.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari