Hvernig lýsir hettusótt sér?

Spurning:

Hvernig lýsir hettusótt sér hjá börnum? Við erum með 5 ára gamlan dreng sem er bólginn á aftanverðum hálsi vinstra megin. Hann er ekki með hita. Óskum einnig eftir ráðleggingum um hvað á að gera.

Takk fyrir.

Svar:

Hettusótt er veirusýking og veldur bólgu m.a. í munnvatnskirtlum. Munnvatnskirtlarnir eru framan við eyru og undir kjálkabarði.

Íslensk börn eru bólusett við hettusótt við 18 mánaða aldur, en þá er jafnframt bólusett gegn mislingum og rauðum hundum. Hettusótt er því orðin mjög sjaldgæf í börnum.

Mun líklegra er að bólgan sem þið finnið á hálsi drengsins sé stækkaður eitill. Eitlar stækka á hálsi m.a. við kvef og hálsbólgu eða ef skrámur koma í andlit. Stækkaðir eitlar á hálsi eru því mjög algengir hjá börnum og ekki ástæða til frekari rannsókna eða meðferðar ef barnið er frískt.

Kveðja,
Bryndís Benediktsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum, sérsvið svefnrannsóknir