Hvernig lýsir krabbamein í þvagblöðru sér?

Spurning:
Hvernig lýsir krabbamein í þvagblöðru hjá konum sér?

Svar:
Einkenni krabbameins í þvagblöðru eru fyrst og fremst blóð í þvagi, sviði við þvaglát, aukin tíðni á þvaglátum og verkir allt eftir útbreiðslu sjúkdómsins. Sem sagt sömu einkenni og fylgt geta sýkingu í þvagblöðru. Rauð blóðkorn í þvagi eða blæðing (hematuria) gefa grun um illkynja sjúkdóma í þvagvegum þó svo að þau einkenni geti einnig fylgt þvagfærasýkingum og nýrna- og blöðrusteinum. Greiningin er fólgin í einfaldri blöðruspeglun, sneiðmynd og/eða röntgenmyndum af þvagvegum. Það ber að taka fram að þvagfærakrabbmein eru 2-3 sinnum algengari hjá körlum en konum og greinast flest hjá fólki á sjötugsaldri. Kveðja,
Kristín, Krabbameinsráðgjöfinni.