Hvernig minnka ég lærin og magann?

Spurning:

Kæra Ágústa.

Ég er 29 ára og á 3 börn. Ég er 61 kg. og 166 cm. Ég hef þjálfað að meðaltali 2-3 í viku.

Ég er orðin nokkuð stælt. Lærin minnka þó ekki og það er poki eftir á maganum, ég er með smá slit í kringum naflann. Ég er frekar perulaga. Er nokkur von til þess að ég geti minnkað lærin og losnað við pokann?

Kær kveðja.

Svar:

Sæl.

Já ég tel nokkuð víst að þú getir losnað við auka fitu af lærum og kvið. Þú þarft að æfa oftar í viku, 5-6 sinnum í 30-40 mín í senn. T.d. getur þú æft þolþjálfun 3x í viku og gert styrktaræfingar 3x í viku.

Ég myndi ráðleggja þér að æfa þolþjálfun með eftirfarandi hætti:
Ganga rösklega í 5 mín, hlaupa í 1 mín, ganga í 2 mín, hlaupa hratt í 1 mín, og svona til skiptis í 20 mín. og ganga þá loks aftur í 5 mín. til að fá hjartsláttinn hægari á ný.

Styrktarþjálfunin þarf að byggjast á fjölbreyttum æfingum fyrir alla helstu vöðvahópa líkamans. Hitaðu alltaf upp með því t.d. að ganga eða skokka áður en þú gerir æfingarnar. Nú svo skiptir mataræðið mjög miklu máli, viljir þú sjá árangur. Borðaðu hollt og fjölbreytt fæði og forðastu fituríkan mat og sætindi. Gættu þess að borða ekki of stóra skammta. Lykilorðið hér er : Gættu hófs.

Vertu svo þolinmóð, þetta gerist ekki á viku…. Hugsaðu um þetta sem breyttan lífsstíl og langtíma markmið.
Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari