Hvers vegna er verð á nikótínlyfjum svona hátt?

Spurning:

Sæl.

Mig langar að fá upplýsingar um hvers vegna nikótínlyf eru svona dýr og hvernig verðlagningu þeirra er háttað. Liggja t.d. almannahagsmunir að baki verðlagningunni eða viðskiptalegir? Mér hefur verið tjáð að í raun sé níkótín frekar ódýrt efni og að nikótíntyggjó ætti ekki að vera dýrara en venjulegt tyggjó í framleiðslu. Ég hef heyrt níkótínfíkla kvarta mikið yfir verðlagningunni og snúið sér t.d. að munn- og neftóbaki til að forðast reyktóbakið.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Takk fyrir fyrirspurnina. Þessi spurning er á vörum margra og finnst fólki undarlegt hvað verð á nikótínlyfjum þarf að vera hátt. Það er rétt hjá þér að nikótínlyf kosta mikið og þar kemur til að Tryggingastofnun ríkisins niðurgreiðir þau ekki, eins og hún gerir við flest önnur lyf. Ég tala um nikótínlyf, en það eru nikótíntyggjó, plástrar, innsogslyf, nefsprey og tungurótartaflan.

Það kemur að því að nikótínlyf verða niðurgreidd og í raun hálf öfugsnúið að þau séu ekki niðurgreidd nú þegar, þar sem stefna stjórnvalda er að vinna gegn reykingum. Heilbrigðiskerfið myndi líka hagnast á því ef fólk hefði efni á því að kaupa nikótínlyf og hætti þá í meiri mæli að reykja, en reykingar eru mjög heilsuspillandi og sjúkdómar tengdir reykingum kosta heilbrigðiskerfið mjög mikið.

Það er einnig heilsufarslegt mál þeirra sem reykja að snúa sér ekki að reyklausa tóbakinu, heldur nota nikótínlyfin. Reyklausa tóbakið er mjög slæmt fyrir slímhúð munns og nefs og líkur á krabbameini í munni og nefi aukast við notkun á reyklausu tóbaki. En því miður eru allt of fáar rannsóknir um reyklaust tóbak svo hægt sé að fullyrða eitthvað um það. Samt sem áður tel ég mun heilsusamlegra að nota nikótínlyf og því er það hagur fyrir okkar þjóðfélag að niðurgreiða nikótínlyf og ýta þannig undir að reykingafólk noti það frekar en að ánetjast reyklausu tóbaki.

Með kærri kveðju,
Jóhanna S. Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi hjá Ráðgjöf í reykbindindi