Hvers vegna myndast nýrnasteinar?

Spurning:

Hvers vegna myndast nýrnasteinar?

Af hverju fá sumir nýrnasteina en ekki aðrir?

Svar:

Nýrnasteinar eru einn af algengari sjúkdómum sem leggst á þvagfærin. Algengast er að sjúkdómurinn byrji á aldrinum 20 – 40 ára og er algengari hjá körlum en konum. Hvers vegna sumir fá nýrnasteina en ekki aðrir er ekki alltaf svo auðvelt að útskýra og í sumum tilfellum algerlega óljóst. Í þvagi eru efni sem hindra myndun nýrnasteina, en hjá sumum einstaklingum virðast þau ekki virka eins og þarf og því myndast steinar. Þannig getur ákveðin fæðusamsetning haft áhrif á þá sem eru líklegir til að mynda steina, meðan sama fæða hefur engin áhrif á þá sem ekki fá nýrnasteina.

Ýmsir þættir hafa áhrif á myndun nýrnasteina og spilar erfðafræðileg uppbygging einstaklingsins þar stærsta hlutverkið. Aðrir þættir eru aukin þéttni þeirra efna sem mynda steina í þvaginu og þættir sem auka þessi efni s.s. sú fæða sem við neytum, ýmis lyf og sjúkdómar.

Til eru nokkrar tegundir nýrnasteina en til að vita um hvaða tegund er að ræða er samsetning steinsins skoðuð þar sem því er viðkomið og einnig þarf að gera þvag- og blóðrannsóknir á sjúklingi. Þeir steinar sem eru algengastir og eru um 70% af öllum nýrnasteinum, eru sk. kalksteinar og myndast þeir þegar of mikið kalsíum er í þvaginu. Helstu orsakir þess að of mikið kalsíum er í þvaginu: lyf geta valdið hækkun á kalsíum í þvagi s.s. skjaldkirtilslyf og sum þvagræsilyf aukin upptaka á kalsíum í þörmum vegna aukinnar framleiðslu á D-vítamíni í nýrum aukin losun á kalsíum frá beinum sem sést þegar kalkkirtlar verða ofvirkir og við ákveðinn arfgengan sjúkdóm sem kallast Renal Tubular acidosa galli í nýrum sem veldur því að þau leka kalsíum, hjá þeim sem hafa þennan galla getur mikil neysla á salti og próteinum valdið auknu kalsíum í þvagi sjúkdómar geta valdið hækkun á kalsíum s.s. sum krabbamein og sarcoisdosis. Mjög erfitt er að segja til um af hverju sumir fá steina en ekki aðrir, það er erfðaupplag einstaklingsins sem stjórnar því. Stöðugt er verið að rannsaka orsakir sjúkdómsins og telja sumir í dag að það sé ákveðið gen sem stjórnar magni klórs í þvaginu sem starfar ekki rétt í þeim einstaklingum sem fá nýrnasteina sem ekki er hægt að útskýra. Þetta er enn verið að rannsaka. Ég vona að þetta gagnist ykkur að einhverju marki, því miður er lítið um þetta vitað.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir