Hvers vegna var hætt að nota aspirin hér á landi ?

Spurning:
Hvers vegna var hætt að nota aspirin hér á landi ? Hafði það einhverjar aukaverkanir og hverjar voru þær þá ? Kærar þakkir.

Svar:
Aspirin er í raun sérheiti þýska efna- og lyfjaframleiðandans Bayer fyrir efni sem heitir acetýlsalisýlsýra. Það var einmitt starfsmaður þessa fyrirtækis sem bjó til þetta efni og notaði fyrstur manna fyrir rétt rúmum 100 árum.

Aspirin Bayer hefur ekki verið á markaði hér í áratugi, en fékst þó sem tuggutöflur í nokkur ár upp úr 1990. Hins vegar voru asetýlsalisýlsýrutöflur framleiddar hér í apótekum á árum áður og seldar undir því nafni þó svo að þær væru oftast kallaðar Asperín manna á meðal þar sem eiginlega heitið sem þær voru merktar með er afar óþjált.

Þegar skylt var að skrá lyf hér á landi upp úr 1980 færðist framleiðslan yfir í lyfjaverksmiðjur og var það Delta sem framleiddi þessar töflur til skamms tíma. Mest var selt af þeim með svokallaðri sýruhjúpshúð. en það þýðir að töflurnar voru húðaðar með sérstöku efni sem ekki leysist upp í súru umhverfi magans, en leysist hins vegar vel upp í hutlausu umhverfi þarmanna. Þetta var gert til þess að vernda magann, en asetýlsalisýlsýra er mjög ertandi fyrir magaslímhúð.

Delta hætti síðan fyrir fáum árum síðan að framleiða þessar töflur þar sem salan á þeim var orðin mjög lítil. Það var ekki síst vegna þess að mörg önnur og mun betri gigtarlyf voru komi á markað.

Hins vegar lifa Magnýltöflurnar ennþá góðu lífi. Virka efnið í þeim er einmitt fyrrnefnd asetýlsalisýlsýra. Þær innihalda einnig lítið magn magnesíums oxíðs, en því er ætlað að vernda magaslímhúðina fyrir ertandi áhrifum virka efnisins. Verkun Magnýls og fyrrnefndra setýlsalisýlsýrutaflna á því að vera nákvæmlega sú sama.

Til skamms tíma fengust einnig innfluttar töflur með sama virka efninu. Það voru Globentyl, en framleiðslu þeirra mun hafa verið hætt og Novid freyðitöflur, en innflutningi þeirra var hætt vegna lítillar sölu.

Kveðja,
Finnbogi R. Hálfdánarson
Lyfjafræðingur