Hvítleit útferð úr leggöngum

Spurning:
Ég var að að spá, ég er með hvítleita útferð úr leggöngum sem líkist helst greftri. Ég hef farið til læknis út af þessu tvisvar, fyrst gaf hann mér sveppalyf sem virkaði ekki en svo gaf hann mér eitthvað lyf sem ég man ekki hvað heitir, gegn góðkynja bakteríusýkingum í leggöngum… það virtist virka eitthvað en svo kom þetta bara upp aftur og jafnvel meira en áður. Læknirinn sagði mér ekkert um það hvort að meðhöndla þyrfti maka líka og er ég að spá í hvort að það sé kannski útskýringin eða ætli þetta sé eitthvað annað? Ég er líka búin að fara í klamydíutékk og það var neikvætt. Þetta er einhverskonar hvítt sull sem sest á veggi legganganna… veldur mér persónulega engum óþægindum, en ég næ ekkert að blotna þegar að ég og kærastinn minn erum að stunda kynlíf, og ef ég blotna, þá virðist sem þessi útferð þurrki allan vökvann. Veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa þessu… þetta er eins og að þreifa með puttunum á afmælisblöðruefni eða einhvers konar gúmmíi… hefur þú einhverja betri hugmynd um hvað þetta gæti verið? Getur þú sagt mér hvað lyfið við bakteríunni sem ég nefndi fyrr heitir?

Svar:

Ágæti fyrirspyrjandi.

Þetta hljómar eins og aukið magn sveppa, þar sem þú hefur engin óþægindi ættir þú að geta náð þessu niður með einum eða tveimur skömmtum af sveppalyfi sem selt er í apótekum án lyfseðils, t.d. Canesten eða Pevaryl. Varðandi lyfið sem þú fékkst væri einfaldast að hringja í þann lækni sem ávísaði því og spyrja hann.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr med