Inflúensa og börn

Fyrirspurn:

Mig langar að vita hvernig það er nú er bróðir minn hugsanlega með H1N1 eða svínaflensuna og ég er með barn á brjósti og hún er með asma. Er eitthvað sem ég get gert eða bíður maður og sér til (finn fyrir ógleði núna kannski hræðsla)?

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

 

Það er eðlilegt að þú hafir áhyggjur og ýmislegt sem þú getur gert.

Í fyrsta lagi  er að halda dóttur þinni heima og í burtu frá öllum með kvef einkenni. það á ekki bara við vegna Flensunnar heldur líka vegna þess að hún er komin með Astma og þess vegna viðkvæmari fyrir að smitast af öllum kvefpestum.

Í öðru lagi er það handþvottur sem skiptir öllu máli. Handþvottur er sú einstaka athöfn einstaklinga  sem best kemur í veg fyrir smit að mati Alþjóða Heilbrigðistofnunarinnar og Landlæknisembættisins þar sem flensuvírus smitast með úða og snertismiti.

Allir sem koma að því að sinna dóttur þinni þurfa að þvo sér vel um hendur áður en þeir snerta hana eða dótið hennar.     

         Dæmisaga:  Gunni er smitaður en veit það ekki og  hnerrar eða hóstar og heldur fyrir munninn en þvær sér ekki…      kemur svo við hurðahún eða eitthvað þvílíkt og þar situr veiran. Hún getur lifað þannig í smá tíma, þar til Jói tekur í       húninn og nær sér svo í tyggjó… þá er veiran komin í munninn á Jóa og getur farið að sýkja hann.

 

 

Vonandi hjálpar þetta en mundu að vera róleg, við búum við gott heilbrigðiskerfi og ýmis úrræði eru í boði. Gruni þig að þú eða dóttir þín séuð smitaðar skaltu hafa samband við lækni og fá frekari aðstoð.

Með bestu kveðjum

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur