Jákvæð áhrif líkamsræktar á meðgöngu

Spurning:

Mig langar til að spyrja þig nokkurra spurninga í sambandi við verkefni sem ég er að vinna í Íþróttaskori, Kennaraháskóla Íslands. Verkefnið er í sambandi við jákvæð áhrif líkamsræktar á konur meðan á meðgöngu stendur og eftir fæðingu. Ég hef verið að skoða ýmislegt um þetta efni á netinu og langaði að fá nánari útskýringu ef það væri hægt í sambandi við nokkur atriði sem ég fann.

1. Talað er um að ef konur stundi heilbrigða líkamsrækt á meðgöngu þá geti það minnkað líkur á keisaraskurði. Er eitthvað sem þú veist sem styður þetta?
2. Talað er um að líkur á bjúgmyndun á höndum og fótum minnki vegna aukins blóðflæðis. En hvers vegna verður bjúgmyndun til að byrja með?
3. Talað er um að legkakan vaxi hraðar og starfi betur. Er það vegna aukins blóðflæðis?
4. Talað er um að líkamsrækt hjálpi við að stjórna magni blóðsykurs. Er það vegna þess að móðirin hreyfir sig í samræmi við það sem hún borðar?
5. Talað er um að líkamsrækt minnki líkur á gyllinæð. Hvers vegna eru þungaðar konur í hættu við að fá gyllinæð?
6. Talað er um að líkamsrækt minnki líkur á þunglyndi eftir fæðingu. Veistu um eitthvað sem styður það og þá hvers vegna?
7. Talað er um að líkamsrækt geti minnkað verki í baki. Hvers vegna gerist það?
8. Talað er um að þungaðar konur ættu að varast háfjallaþjálfun vegna þess að það geti svipt barnið súrefni. Hvers vegna gerist það? Lætur líkaminn móðurina ganga fyrir þegar kemur að lágu súrefnismagni í líkamanum? Eða blóðleysi?
9. Hvað gerist ef þrýstingur minnkar í legi t.d. ef maður er við köfun?

Svar:

Sæl.

Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Ég mun þó leitast við að svara þessum spurningum og vona að svörin verði þér að gagni. Mér þætti líka akkur í að fá að sjá þær heimildir sem þú notast við þar sem margt af því sem þú telur upp er þess eðlis að gott er fyrir okkur að skoða það betur.

1) Það er rétt að konum sem eru í góðu líkamlegu ástandi líður oftast betur á meðgöngu og eiga auðveldara með að fæða en þeim sem eru í lélegu formi. Þar af leiðir að e.t.v. eru minni líkur á að konan lendi í þannig vandamálum í fæðingunni að grípa þurfi til keisaraskurðar. Algengasta ástæða bráðakeisaraskurðar er þó yfirvofandi fósturstreita og hefur því ekki beinlínis með líkamsástand móðurinnar að gera.
2) Bjúgmyndun er eðlilegur fylgikvilli meðgöngu og verður vegna aukins gegndræpis bláæða vegna hormónamyndunar. Hreyfing hjálpar æðapumpunum að dæla blóðinu í átt til hjartans og eykur einnig sogæðastreymi þannig að vökvinn úr æðakerfinu nær ekki eins að safnast út í vefina. Þannig getur hreyfing hjálpað við að halda bjúgsöfnun niðri. En í þeim tilfellum þar sem bjúgmyndun verður vegna nýrnabilunar þá dugar ekki hreyfing til að halda bjúgnum niðri og þá er hvíld og lega farsælli leið til að minnka bjúg.
3) Ekki hef ég séð rannsóknir sem styðja þá kenningu að fylgjan vaxi og starfi betur ef kona stundar líkamsrækt. Þvert á móti getur mjög ströng líkamsrækt rænt blóðflæði frá fylgjunni og rýrt blóðflæðið til barnsins.
4) Varðandi blóðsykurinn þá er hófleg líkamsrækt góð til að halda blóðsykri í jafnvægi vegna þess að hreyfingin eykur brennslu og líkaminn nýtir fitu og sykur til brennslunnar. Hreyfingin vinnur þannig með insúlíni líkamans til að halda blóðsykri í jafnvægi.
5) Gyllinæð er algengur kvilli á meðgöngu og verður vegna hormónaáhrifa sem draga úr hraða meltingar og gera æðaveggi teygjanlegri og mýkri. Þegar svo við bætist aukinn innri þrýstingur út frá stækkandi legi gefa æðarnar í endaþarminum eftir og til verður gyllinæð. Sterkur grindarbotn getur minnkað líkur á gyllinæð en á hinn bóginn geta mikil átök og rembingur aukið líkur á gyllinæð.
6) Vitað er að líkamsrækt hefur jákvæð áhrif á vægt þunglyndi og er mögulegt að það sé vegna endorfínlosunar, en endorfín eru efni sem sem líkaminn framleiðir og valda vellíðunartilfinningu. Endorfín verða m.a. til við áreynslu.
7) Varðandi bakverkina þá er líklegt að séu bak- og kviðvöðvar sterkir þá haldi þeir betur á móti vaxandi þunga framan á eftir því sem legið stækkar. Alhliða hreyfing heldur líka liðunum mjúkum þannig að liðir stirðna síður.
8) Þar sem háfjallaloft er súrefnissnauðara en andrúmsloft niðri við sjó skerðist súrefnisflæði til allra hluta líkamans þannig að það eitt að vera í háfjallalofti er áreynsla. Við mikla áreynslu minnkar súrefnisflutningur til innri líffæra, þ.m.t. legsins og því fær barnið minna súrefni. Blóðleysi, eða öllu heldur lágt magn hemoglobins, er eðlilegur fylgifiskur meðgöngu og orsakast af því að vökvamagn blóðsins eykst þannig að færri blóðkorn verða á hverja einingu blóðs. Þess vegna er líkami barnshafandi kvenna mun verr settur gagnvart súrefnisskerðingu en hann er undir eðlilegum kringumstæðum.
9) Köfun er ekki æski
leg á meðgöngu vegna þess m.a. að skerðing verður á súrefnismettun blóðsins og þrýstingsbreytingar í legi geta valdið fylgjulosi.
Vona að þú fáir eitthvað haldbært út úr þessu.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir