Jákvætt þungunarpróf – verkir í legi

Spurning:

Góðan daginn.

Ég missti fóstur í október sl. og er komin af stað aftur, en er ekki sátt. Er ég gerði þungunarprufu, kom jákvætt svar en línan var svakalega dauf, strikið rétt sást. Ég var komin 2 daga framyfir er ég gerði prófið. Einnig er ég alltaf að fá verki, eins og túrverki. Hvað þarf maður að vera kominn langt til að læknir geti greint hvort allt er eðlilegt eða hvort þetta er utanlegsfóstur. Ég get ekki hugsað mér að ganga í gegnum fleiri hremmingar.

Ein hrædd.

Svar:

Sæl.

Flestar konur finna túrverki fyrstu vikur meðgöngu þegar legið er að stækka. Þetta eru eins konar vaxtarverkir því það togast líka í böndin sem halda leginu þegar það stækkar. Þótt línan hafi verið dauf þarf það ekki að þýða að fóstrið sitji ekki rétt. Þú ert einfaldlega komin frekar stutt á leið eða þetta er fölsk jákvæð prufa. Það væri rétt hjá þér að gera aftur prufu eftir nokkra daga ef blæðingar hafa ekki byrjað. Fóstursekkur sést í ómskoðun þegar liðnar eru 5 vikur frá fyrsta degi síðustu blæðinga (miðað við 28 daga tíðahring) og þá er hægt að greina hvort hann situr ekki örugglega í leginu. Margir kvensjúkdómalæknar hafa ómskoðunartæki á stofunni hjá sér svo þú getur pantað þér tíma fljótlega til að vera örugg.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir