Járn og brjóstagjöf?

Spurning:
Fyrirspurn í sambandi við brjóstagjöf. Ef móðir er að taka inn járntöflur og fólinsýru vegna blóðleysis, getur það valdið pirringi hjá barninu (5 vikna) þ.e fer það út í mjólkina? Nú þola margir fullorðnir illa járninntökur?
Með fyrirfram þökkum

Svar:
Það er vel þekkt að ýmis bætiefni geta valdið óværð hjá börnum, þótt það hafi reyndar ekki verið vísindalega sannað. Þekktast er að óværð komi í kjölfar inntöku fjölvítamíns og járns en einnig eru ýmis önnur efni þekkt fyrir þetta, sem og örvandi efnin kaffi, kók og súkkulaði. Ef þú þarft nauðsynlega að taka inn járn skaltu taka það inn strax eftir gjöf og drekka ríkulega af vatni eða ávaxtasafa með. Þá ættu bragðefnin að vera aðeins í rénun við næstu gjöf.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir