Járnskortur – hver er ástæðan?

Spurning:

Sæll.

Ég er tvítug kona og þjáist af járnskorti. Undanfarna 3 mánuði hef ég tekið Ferlen-R vegna járnskorts og fer það mjög illa í magann á mér. Samkvæmt læknisráði á ég á að taka 200 mg á dag, ásamt C-vítamíni. En ég get ekki tekið nema 100mg því ég fæ ákafa magaverki af þegar ég tek 200mg. Auk þess er ég með mjög sáran niðurgang daglega eftir máltíð. Ástæðan fyrir þessum verkjum er mér óljós. Ég fór í blóðprufu og mældist með niðurstöðuna 9 í blóði. Ég er ekki matvönd og borða alla jafnan hollan og góðan mat. Mér er alltaf kalt og síþreytt og myndi gjarnan vilja vera laus við þetta ástand. Fleiri konur í minni ætt þurfa að taka inn járn ævilangt vegna þess að líkaminn einfaldlega nýtir járnið svo illa. Ég óttast að það sama verði með mig. Hver er ástæðan fyrir járnskorti hjá annars heilbrigðri tvítugri stúlku og hvað veldur því að sumir einfaldlega nýta ekki járnið úr fæðunni? Ég hef heyrt að sumum einstaklingum sé gefið járn í æð. Væri það betri kostur fyrir mig? Fylgja því aukaverkanirnar?

Með fyrirfram þökk.
Ein járnlaus!

Svar:

Algengasta orsök blóðleysis er járnskortur eða sennilega í um fjórðungi tilfella. Ástæða járnskorts er venjulega vegna ónógs járns í fæðu, lélegs frásogs, aukningar á járnþörf, blóðmissis eða ákveðinna sjúkdóma.

Mest frásogast af járni í súru umhverfi skeifugarnar en í basísku umhverfi smáþarmanna á járnið það til að mynda óleysanlega „komplexa" sem frásogast ekki. Þegar járnskammtur er aukinn eykst frásogið ekki að sama skapi og skammturinn var aukinn. Dæmi: Sé skammtur aukinn úr 100 mg í 200 mg verður það járn sem nýtist líkamanum ekki tvöfalt meira heldur ívið minna. Samt eykst það magn sem líkaminn nýtir. Matur getur minnkað frásog járns þannig að best er að taka járnið a.m.k. einni klukkustund fyrir mat, ef það er möguleiki. Margir upplifa ógleði og niðurgang ef þeir taka járn á fastandi maga og verða þeir því að taka járnið með mat. Sé járnið tekið með mat minnkar frásogið um meira en helming. Hægt er að komast hjá þessu að einhverju leyti með því að dreifa járnskammtinum í marga smærri skammta og taka það oftar yfir daginn.

Ef fólk svarar ekki járnmeðferð geta orsakirnar verið margvíslegar. Algengast er að fólk gleymi að taka töflurnar, að röng greining eigi sér stað, að frásog sé lélegt eða að um blóðmissi/blæðingar sé að ræða. Það getur verið nauðsynlegt að gefa járn sem stungulyf í vöðva ef staðfesting er á því að frásog járns er óeðlilega lítið eða ef viðkomandi þolir járntöflur illa.

Aukaverkanir við gjöf járns í vöðva: Við ofskömmtun er hætta á að járnbinding í blóði mettist þannig að óbundið járn er til staðar. Það getur haft alvarleg áhrif á hjarta og blóðrás. Aðrar aukaverkanir af járni í vöðva eru t.d. málmbragð í munni, tímabundin litaútfelling og verkir á stungustað, ógleði uppköst og fleira.

Kveðja,

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur