Jarðaberjablettur – englakoss?

Spurning:
Jarðaberjablettur-englakoss. Sonur minn er með svona blett á hálsi og var mér sagt að hann myndi hverfa á öðru ári. Hann hefur stækkað mikið frá því að hann fæddist. En svo er einsog hann hafi orðið aðeins ljósari og ekki eins upphleyptur. En á ég að gera eitthvað í þessu eða bara vera róleg?

Svar:
Komdu sæl.  Þakka þér fyrirspurnina.Æðaflækja þessi nefnist á læknamáli HEMANGIOMA. Þetta er góðkynja æxli sem stafar af mikilli útvíkkun á æðum sem mynda hnút, einn eða fleiri, misstóra. Þetta er ekki óalgengt og það fæðast alltaf nokkur börn á hverju ári með slík mein.  Stundum ganga þessi æxli til baka að sjálfu sér en oftast eru þau meðhöndluð með ljós-laser-geislameðferð.Æðaæxli þessi angra fólk aðallega vegna útlitsins en ekki vegna þess að óþægindi fylgi þeim.  Hins vegar getur blætt mjög mikið úr þeim verði þau fyrir áverka.  Ef þau hafa ekki gengið til baka og eyðst af sjálfu sér eftir 2ja ára aldurinn eru þau oftast meðhöndluð með laser-ljós-geislanum.  Með því að beina ljósi og hita að æðunum er blóðið storkað inni í þeim og sem verður þá að dauðum vef. Það er eitthvað sem líkaminn vill ekki hafa og reynir að losa sig við.  Varnarkerfi líkamans fer því af stað og átfrumur hvítu blóðkornanna ráðast á  þessar dauðu frumur og eyða þeim úr líkamanum með því að éta þær upp. Stundum næst mikill árangur af einni meðferð en hjá flestum sem eru með mikið og/eða stóra æðaflækju getur þurft að endurtaka meðferð – að meðaltali allt að um 4-5 sinnum. 

Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í kostnaði þessarar meðferðar.

Ég ráðlegg þér að koma með son þinn í viðtal og skoðun hingað á stofuna til okkar.  Það er þér að kostnaðarlausu.  Við munum ræða við þig og gefa þér allar upplýsingar um meðferðina sem mundi fara fram í svæfingu hjá syni þínum þar sem hann er svo ungt barn. 

Bestu kveðjur, 

Hrönn Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Laserlækning ehf
Domus-Medica
Egilsgötu 3