Klamydía

Hæhæ er með nokkrar spurningar varðandi klamydíu. Er mögleiki að sjá á klamydíu-testi hversu lengi maður hefur verið smitaður eða er hægt að sjá það úr sýnum sem tekin voru í hefðbundinni leghálskrabbameinsskoðun sem gerð var fyrir meira en ári síðan? Einnig, er hægt að vera smitaður í mörg ár án þess að vita af því? Ef svo er hverjar eru afleiðingarnar?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Við greiningu á klamydíu er ekki hægt að sjá hversu langt er síðan smitið varð. Hjá konum er klamydía yfirleitt greind með þvagsýni en það er líka hægt að greina hana með stroki frá leghálsi. Ég þekki ekki hvort hægt er að skoða sýni sem tekið var fyrir krabbameinsskoðun fyrir meira en ári síðan en mér finnst það vera ólíklegt. Þú getur komist að því með símtali við leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

Helstu einkenni klamydíu hjá konum eru aukin útferð (hvítur eða gulleitur, slímkenndur vökvi frá leggöngum), sviði eða kláði í þvagrásinni við eða eftir þvaglát, tíð þvaglát, óreglulegar blæðingar og stundum kviðverkir. Einkenni geta horfið á fáeinum dögum og blundar þá sýkingin í langan tíma. Hún getur blossað upp síðar af mismunandi orsökum t.d. vegna annarra sýkinga. Hægt er að bera klamydíusmit í langan tíma áður en sýkillinn breiðist út og byrjar að valda einkennu. Fjölmargir fá aldrei nein einkenni þó þeir sú sýktir.

Ef klamydía er ekki meðhöndluð getur hún valdið bólgu í eggjaleiðurum sem getur leitt til ófrjósemi og aukinnar hættu á utanlegsfóstri.

Gangi þér vel