Kláði við endaþarm?

Spurning:
Góðan dag og takk fyrir frábæran vef. Mig langaði að spyrja ykkur ráða. Ég átti barn í mars '03. Á meðgöngunni fór mig að klæja í og við endaþarminn, lýsir sér eins og gyllinæð. Í eftirskoðuninni sem ég fór í 8 vikum eftir fæðingu (barnið tekið með fyrirfram ákveðnum keisara) spurði ég lækninn út í þetta en hann sagði að ég væri ekki með gyllinæð. Ég fór aftur til kvensjúkdómalæknis um miðjan desember og spurði hann út í þetta líka því kláðinn hefur ekkert minnkað og ég er að verða gjörsamlega brjáluð og hann sagði það sama að þetta sé ekki gyllinæð. Hann sagði að þetta gæti kannski verið út af einhverju sem ég er að borða en ég er ekkert að borða neitt öðruvísi heldur en vanalega og þetta er búið að vera núna í meira en ár. Mér fannst þetta ekki fullnægjandi svar því kláðinn minnkar ekki og það hangir skinn út úr endaþarminum á mér og einhverskonar blöðrur og ég er öll út í sárum :o( Það sem ég vildi spyrja ykkur um er: Hvað getur þetta verið og hver er ástæðan og hvert get ég leitað ef ég get ekki farið til kvensjúkdómalækna?
P.s. ég hef fengið njálg þegar ég var yngri og veit hvernig það er og finnst þetta ekki vera svoleiðis enda enginn annar í fjölskyldunni að kvarta.. Með fyrirfram þökk og vön um skjót svör því ég er að verða brjáluð :o(
Kveðja ein brjáluð..

Svar:
Sæl (,,ein brjáluð")

Kláði við endaþarm (pruritus ani) er algengt og hvimleitt vandamál sem er talið hrjá 1-5% einstaklinga og er 4 sinnum algengara hjá körlum en konum. Kláðinn getur verið mismikill, tímabundinn eða langvinnur með hléum á milli og er oft verstur á nóttunni og og á daginn eftir vinnu eða þegar ró færist yfir fólk. Með kláðanum fylgir oft brunatilfinning og særindi við endaþarmsopið.
Orsakirnar geta verið margvíslegar en oftast er þetta vandamál af óþekktum toga. Vandamálið getur verið tengt hægðaleka sem kemur stundum fram eftir fæðingar við álag á endaþarmsvöðvann. Einnig getur þetta verið í tengslum við niðurgang, gyllinæð, afrifu við endaþarmsopið, endaþarmssig, ýmsar sýkingar (t.d. sveppasýkingar), húðsjúkdóma (t.d. psoriasis, exem ofl.), ertingu af ýmsum toga, t.d. svita, saur, sápum, snyrtivörum, salernispappír, nærfötum, þvottaefnum, matvörum (kaffi, te, bjór, tómatar, súrmatur, súrir drykkir, súkkulaði, ofl.), lyfjum (t.d. C-vítamíni, hægðalyfjum ofl.).
Oft myndast vítahringur með kláða-klóri-meiri kláða-meira klór osfrv. Mikilvægt er að fara yfir ofangreinda þætti varðandi mataræði, þvottaefni, nærfatnað, sápuþvott, forðast að nudda og hreinsa of mikið með salernispappír, nota frekar votan klút (barnaklúta), halda húðinni við endaþarmsopið rakafríu, t.d. með barnapúðri. Hægt er að kaupa 1% hydrocortisone krem án lyfseðils sem nota má og bera á tvisvar á dag. Einnig er hægt að fá með lyfseðli krem (Doloproct Comp) sem inniheldur stera, sýkla- og sveppadrepandi efni og staðdeyfilyf) Krem sem inniheldir zink (zinc oxide) getur einnig gagnast. Ef þetta hjálpar ekki þá ættir þú að láta meltingarlækni líta á þetta:

Bestu kveðjur

Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum