Kolvetnissvelti

Spurning:

Sæl Ingibjörg.

Mig langar að vita hvort það sé slæmt að fara í kolvetnissvelti í nokkra daga. Er einhvers staðar hægt að nálgast prógramm yfir það?

Svar:

Kolvetni er það orkuefni sem líkamanum reynist auðveldast að nýta sem orkugjafa. Ef líkaminn fær ekki nægjanlegt magn af kolvetnum úr fæðunni til orkumyndunnar, eykst fituniðurbrot, en fitan er ekki brotin niður að fullu heldur myndast svokallaðir „ketone bodies“ sem vöðvar og aðrir vefir geta nýtt sér til orkumyndunar. „Ketone bodies“ hlaðast upp í líkamanum og geta valdið ketósu, ástandi sem truflar sýru-basa jafnvægi líkamans. Í þessu sama ástandi er niðurbrot vöðva einnig mikið. Til að spara vöðva og koma í veg fyrir ketósu, þarf líkaminn 50-100 g af kolvetnum á dag. Fólk er hins vegar hvatt til þess að neyta kolvetna í meira magni en sem þessu nemur og liggur fjöldinn allur af rannsóknum sem sýna fram á ágæti kolvetna til grundvallar þessum ráðleggingum.

Kúrar sem gera út á kolvetnasvelti geta verið mjög varasamir, hvort sem er um að ræða nokkra daga eða lengri tíma. Ketósan getur valdið miklu þyngdartapi og lystarleysi fyrstu dagana – EN þetta þyngdartap er til komið vegna tæmingu á glýkógenbirgðum líkamans (kolvetnabirgðum sem eru allt að 2 kg), tapi á próteinum og vatni, ásamt steinefnum. Fitutap er ekki meira í kolvetnasvelti heldur en á venjulegu blönduðu fæði, ef um sama magn hitaeininga er að ræða. Einkenni ketósu geta verið ógleði, svimi, hægðartregða, lágur blóðþrýstingur og andremma.

Kolvetnasvelti getur einnig truflað aðra líkamsstarfsemi svo sem insúlínframleiðslu og virkni. Ég myndi því ekki mæla með kolvetnasvelti – það er engin ástæða til að leggja það á líkamann. Ef kolvetnum er sleppt, verður fæðið fitu- og próteinríkt. Vel eru þekkt skaðleg áhrif mikillar fituneyslu og er þá nærtækast að nefna aukna áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Mikil próteinneysla getur einnig í sumum tilfellum verið varasöm og valdið álagi á nýrun. Kolvetnarík matvæli eru mjög mikilvæg uppspretta ýmissa næringarefna, svo sem vítamína og steinefna auk trefja. Þar sem árangur af kolvetnasvelti er ekki varanlegur og vegna þeirrar staðreyndar að kúrinn getur verið skaðlegur, þá mæli ég alls ekki með honum – ekki einu sinni í nokkra daga.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir, næringarfræðingur