Komin yfir fertugt – hætta á göllum?

Spurning:
Kæri doktor.
Málið er að mig hefur í mörg ár langað að eignast fleiri börn, ég er 40 ára og hef ekki þorað það þar sem að ég á eitt fyrir sem er misþroska og ofvirkt barn, líka þar sem að maðurinn minn á eitt barn fyrir sem er líka með greiningu, komið hefur lika í ljós að þetta er erfðarþáttur í hans fjölskyldu. Þetta hefur stoppað okkur, en í dag þráum við að eiga eitt enn, en erum rosa hrædd við að höndla það ef fötlun getur orðið meiri. Er hægt að rannsaka svona áður, eða sést svona við legvatnsprufu. Er áhættan orðin miklu meiri á þessum aldri? Með fyrirfram þökk. x

Svar:
Áhættan á fósturgöllum eykst með hækkandi aldri konunnar og hætta á litningagöllum er um 1/100 við fertugt. Með legvatnsprufu er einungis hægt að sjá litningagalla og þessi tegund fötlunar (þ.e. misþroski og ofvirkni) er ekki tengt litningagalla og greinist yfirleitt ekki fyrr en börnin fara aðeins að eldast. Þannig að því miður er ekki hægt að sjá allar fatlanir með nútímatækninni, þótt henni fleygi fram.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir