Kossageit

Spurning:

Kossageit.

Strákurinn okkar hefur verið með stöðug útbrot fyrir ofan rass. Hefur fengið smyrsli: Fucidin sem slær eitthvað á þetta, en þetta virðist ætið koma aftur. Einnig hefur hann fengið sýklalyfjakúra, en þetta virðist ekki duga. Mig vantar nánari upplýsingar um orsök og ástæðu endurtekinnar sýkingar.

Svar:

Erfitt er að átta sig á hvers eðlis þessi útbrot eru án frekari upplýsinga. Þú nefnir ekki aldur sonar þíns og hvort hann notar bleiu ennþá. Frekari lýsing á útbrotnum sjálfum er einnig nauðsynleg svo og hvernig þau haga sér t.d. hvort þau hverfa alveg á milli, hvernig þau breiðast út o.s.frv. Nauðsynlegt er að þú farir með son þinn til læknis til að fá lausn á vandanum. Í ljósi sögu og skoðunar getur hann áttað sig á hvers eðlis útbrotin eru en einnig getur hann tekið sýni í ræktun.

Sú meðhöndlum sem hann virðist hafa fengið til þessa beinist gegn bakteríusýkingu. Fucidin er sýklalyf og vinnur aðalega á bakteríu sem nefnist Staphylococcus aureus. Þessi baktería er algeng á húð okkar undir venjulegum kringumstæðum en hún getur líka valdið sýkingu. Bakterían sýkir gjarnan svæði sem veik eru fyrir þó vissulega geti hún valdið sýkingu á heilli húð. Sýking þessi er oft kölluð kossageit og er algeng kringum munn en hún getur einnig verið útbreidd um líkamann. Sýkingin er mjög smitandi. Þó þetta sé sú baktería sem oftast veldur húðsýkingum koma vissulega aðrar bakteríur til greina og önnur sýklalyf þarf til að ráða niðurlögum þeirra. Sveppir eru örverur sem oft valda sýkingum á bleiusvæði barna. Ákveðnar tegundir þeirra eru eins og ákveðnar tegundir baktería til staðar á líkamanum undir eðlilegum kringumstæðum en geta fjölgað sér óeðlilega og valdið sýkingum. Sveppasýkingar krefjast annarar meðhöndlunar en bakteríurnar og því mikilvægt að greina þar á milli.

Gangi ykkur vel,

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir