Krabbamein og hármissir

Spurning:

Sæl.

Ég er að fara í 3 mánaða efnameðferð vegna krabbameins í hálsi/nefi.

Er það alveg örrugt að ég muni missa hárið, sem mér líst mjög illa á ?
Er einhverskonar afsláttur/styrkur af hárkollum fyrir krabbameinssjúklinga sem þið vitið um ?
Er eitthvað sem ég get gert til að hindra hárlos ?
Takk fyrir.

Svar:

Einstaklingar sem fá lyfjameðferð við krabbameini missa oft hárið að e-u leyti. Þá á ég við að getur t.d. orðið þynning á hári, eða alger hármissir. Þetta fer að þó mikið eftir hvaða lyf eru notuð (alls ekki öll valda hárlosi) og einnig hvernig meðferð er byggð upp hjá viðkomandi. Það að missa hárið vekur að sjálfsögðu upp margvíslegar tilfinningar (s.s. depurð, reiði) enda er þetta ákveðinn missir eða breyting á líkamsímynd sem einstaklingurinn gengur í gegnum (ekkert ósvipuð sorgarviðbrögðum) og þarf að takast á við ofan á allt annað. Ég ráðlegg eindregið að ræða við lækninn og hjúkrunarfræðing um allar hugsanlegar aukaverkanir meðferðar og þ.á.m. hármissinn. Ef sterkar líkur eru á hármissi, þá ráðleggjum við eindregið að viðkomandi sé búinn að máta hárkollu svo hægt sé að velja svipaðan háralit og "línu" ef fólk vill og til að auðvelda fólki ef til hármissirs kemur. Einnig getur verið ráð að klippa hárið mjög stutt fyrir meðferð í þeim tilgangi að minnka álag á höfuðleðrið ef hármissir verður. Það góða er að hárið vex aftur að meðferð lokinni.

Það er í reglum hjá TR að veita styrk samtals 36.000 til kaupa á hárkollu sem veittur er í gegnum hjálpartækjamiðstöð TR. Varðandi aðferðir til að hindra hárlos hef ég ekki neinar sérstakar sem ég mæli með. Talað hefur verið um svokallaðar „íshöfuðhettur" sem minnka blóðflæði til höfuðleðursins í þeim tilgangi að fyrirbyggja hárlos í lyfjameðferð, en ég þar sem fræðilegur bakgrunnur er ekki nægilegur eða óvissa um afleiðingar slíkrar aðferðar á verkun krabbameinslyfjanna tel ég ekki rétt að ráðleggja slíkar hettur.

Að lokum vil ég benda á símaráðgjöfina hjá okkur (800-4040), einnig er hægt að senda okkur tölvupóst á 8004040@krabb.is.

kær kveðja,
Gunnlaug hjúkrunarfræðingur í Krabbameinsráðgjöf