Krampar í kálfum á nóttunni?

Spurning:
Komiði sæl.
Ég vakna stundum upp við það að ég er með rosalegan krampa í kálfunum, ýmist báðum eða bara öðrum. Þetta er alveg rosalega sárt og það liggur við að ég fari að gráta. Þetta truflar mjög mikið svefninn hjá mér, t.d. í nótt vaknaði ég upp mörgum sinnum og þá var þetta verra en áður hefur komið. Ég veit ekkert af hverju þetta kemur og veit heldur ekki hvað ég get gert til þess að fyrirbyggja krampana eða laga þá. Ég reyni alltaf að strekkja á kálfanum og nudda en það virðist ekki alltaf ganga. Svo ég var að vonast til þess að ég gæti fengið einhver svör hér.
Með fyrirfram þökk,

Svar:
Það eru til ýmis ráð að losna við sinadrátt í vöðvum. Teygðu reglulega á kálfavöðvunum í stöðugri teygju í 2-4 mínútur í einu 2x á dag í 2-3 vikur. Dragðu síðan úr bæði tíma og endurtekningum, þegar þér fer að skána. Magnesíum hefur áhrif á að vöðvi slaki á. Þannig er gott að taka inn aukaskammt af magnesíum á meðan þú ert að lagast. Venjuleg dagsþörf fyrir magnesíum eru 300mg fyrir 18 ára einstakling. Á meðan þú ert að losna við sinadráttinn getur þú tekið allt að 750 mg á dag í einhvern tíma. Þá 250 mg að morgni og 500 mg að kvöldi fyrir svefn. Ef þú ert ólétt skaltu ráðfæra þig við lækninn þinn áður en þú tekur svona mikið magn af magnesíum. Einnig er möguleiki að þú þurfir að leita til sjúkraþjálfara ef ekkert lagast.Gangi þér vel.Steinunn Sæmundsdóttir, MTc sjúkraþjálfariSjúkraþjálfun Styrkur