Kviðverkir við blöðrutæmingu?

Spurning:

29 ára – kona

Ég skil ekki eitt.  Stundum eftir að ég tæmi blöðruna þá fæ ég svo mikla kviðverki allt í einu, svo mikla að ég gríp fyrir kviðinn(bregður við það að fá verkinn).  Þetta gerist aðallega þegar ég er nývöknuð en ekki alltaf yfir daginn, bara stundum.  Ég hélt um tíma að þetta væri vegna eggloss, en nú er þetta að koma óreglulega.

Er ég að fá þvagfærasýkingu sem kemur og fer án þess að ég geri nokkuð?
Eftir að ég fæ verkinn er hann í svona 1-3 mínútur og svo er bara allt í lagi.

kveðja, X

Svar:

Sæl, svar mitt er þannig:

Þetta eru líklegast merki um einhvers konar röskun á þvagblöðrunni eða þvaglátunum fremur en að eitthvað væri að kviðarholslíffærum eða þörmum. Ef þú ert búinn að fara í skurðaðgerðir "á svæðinu", þá er það önnur saga. Það skiptir einnig máli hvort þér verði mjög brátt um þvagið og hvernig þú tæmir blöðruna. Stundum fær fólk verki í blöðruna ef hún er mjög þanin. Minni líkur eru á að þú hafir þvagfærasýkingu. Hér er rétt að skila þvagprufu, athuga með tæmingu blöðrunnar og skrá hvernig þú pissar í 2-3 daga, en þetta áttu að geta gert í samráði við lækni. Frekari rannsóknir ráðast af fyrstu skoðun.

Bestu kveðjur,

Valur Þór Marteinsson