Kynfæraherpes

Fyrirspurn:


Góðan daginn.

Ég fékk herpes 2 (kynfæraherpes) í fyrsta skipti fyrir um ári síðan, þá ólétt að mínu fyrsta barni og það birtist á utanverðu læri. Nú er ég komin með að mér finnst nákvæmlega sömu útbrot á annað brjóstið. Það er eins og blöðrur séu að myndast. Getur þetta líka verið herpes 2? Ég hef aldrei fengið þetta á kynfærin en maðurinn minn fær sín einkenni þar og ég vissi að ég gæti mögulega smitast af honum þegar ég fékk þetta í fyrsta skipti. Geta útbrot kynfæraherpes birst hvar sem er á líkamanum og get ég átt von á þessu á hvaða stað sem er? Ég er með áhyggjur af því að smita barnið mitt og yrði þakklát fyrir einhverjar upplýsingar um þetta.

Aldur:
35

Kyn:
Kvenmaður 

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

Varðandi herpes á líkamanum.
Herpes veirur af gerð 1 eða 2 geta orsakað frunsu eða kynfærafrunsu. Gerð 1 er oftast á vörum (áblástur, frunsa) en gerð 2 á kynfærum. Sagt er að í um 10% tilfella sé málinu öfugt farið (þ.e. gerð 1 á kynfærum en 2 á vörum). Almennt séð koma frunsur fram á afmörkuð líkamssvæði. Gerð 1 kemur á efri eða neðri vör en kynfærafrunsa kemur á húð umhverfis kynfæri eða endaþarm og alveg aftur á húðsvæði sem þekur spjaldhrygg. Kynfærafrunsa getur komið fram á læri eins og bréfritari hefur reynt.
Ég hef einu sinni á 15 ára ferli séð gerð 2 koma fram á húð við herðablað konu sem er líklega sama húðgrein og fer fram á brjóst. Þannig tel ég að útbrot á brjósti geti verið af gerð 2 þó að það sé ólíklegt. Algengara er að útbrot sem líkjast frunsu og koma á efri hluta andlits eða á búk (brjóst eða maga) séu s.k. ristill. Það er þá hlaupabóluveiran sem kemur fram. Hlaupabóluveiran er af herpesveiru ætt og er náskyld herpes simplex sem veldu áblæstri/frunsu.
Það er í raun engin leið að greina þarna á milli nema með ræktun eða öðrum veiruprófum. Til að svara spurningunni hvort bréfritari geti fengið þetta hvar og hvenær sem er þá er því að svara að ef þetta er gerð 2 þá getur það gerst. Við því er hins vegar unnt að gefa lyf (t.d. Famvir, Valtrex). Ef þetta er ristill þá er afar ólíklegt að þetta komi fram á ný.
Varðandi smitun til barns þá eru blöðrunar mjög smitandi. Á móti kemur að langflest börn fá þessar veirur hvort sem er með einum eða öðrum hætti. Handþvottur er afar mikilvægur til að hindra smit.

Kveðja,

Már Kristjánsson, smitsjúkdómalæknir