Kynfæravörtur?

Spurning:
Sæl/l
Ég svaf hjá stelpu fyrir rúmum 4 mánuðum (bráðum 5), en mánuði seinna kom í ljós að hún hafði kynfæravörtur. Læknirinn hennar giskaði á að hún hefði fengið veirusýkinguna fyrir 1-4 mánuðum síðan. Nú er ég kominn í samband og hef sofið hjá kærustunni minni án smokks. Ég hef enn ekki fengið nein einkenni og er að velta fyrir mer líkunum á að ég hafi sloppið við að smitast? Eða hversu lengi ég þarf að ,,bíða" eftir einkennum, þ.e.a.s. hvenær ég geti andað léttar með að ég hafi sýkst eða ekki. Loks langar mig að spyrja um hvort maður geti smitast af vörtunum með munnmökum? Og ef svo, fær maður vörturnar á kynfærin eða getur maður fengið vörtur við munnvikin eftir munnmök? Ég vona að ég fái einhver svör, allt hjálpar því ég hef töluverðar áhyggjur af þessu. Með fyrirfram þökkum.

Svar:
Sæll.

Það er svolítið erfitt að gefa upp einhvern ákveðinn tíma í þessu, ég get þó sagt þér að það er ennþá nokkuð í að þú getir andað léttar. Tíminn frá smiti að fyrstu einkennum getur verið langur, fleiri mánuðir. Stundum er það líka þannig að fólk er komið með vörtur en sér þær ekki sjálft og því ættuð þið að láta skoða ykkur hjá lækni eftir 6 mánuði – fyrr ef einhver einkenni koma í ljós.Varðandi smit við munnmök þá er það ekki algengt, það getur þó valdið óþægindum þegar vörturnar setjast á raddbönd og valda hæsi (þá svífa veirurnar niður í litlum dropum). Þú skalt þó ekki hafa miklar áhyggjur af því. Aðalatriðið úr þessu er að fara í athugun eftir 6 mánuði þar sem þið fáið skoðun og sendið þvag í klamydíuræktun.  Gangi þér velForvarnarstarf læknanema