Kynhvöt barna

Spurning:

Þegar dóttir mín var rúmlega eins árs tók ég eftir því að það var eins og hún væri að að fróa sér, ef hún sat í bílstól, barnastól eða jafnvel ef að hún var í innkaupakörfu út í búð bara ef það var eitthvað á milli fótanna á henni þá byrjaði hún að nudda sér upp við það með taktföstum hreyfingum og mikilli einbeitingu. Ef ég reyndi að banna henni þetta eða biðja hana um að hætta þessu þá brást hún illa við. Einnig hefur hún alltaf fiktað mikið í klofinu á sér. Hún er núna að verða þriggja ára og gerir þetta enn. Núna er hún reyndar hætt að sitja í barnabílstól en þá togar hún bara í buxurnar og heldur uppteknum hætti. Einnig kem ég oft að henni fiktandi við sig og jafnvel að pota uppí leggöngin á sér. Ég hef þó ekki séð að hún fá einhverja fullnægingu eða þess háttar en stundum ef hún hefur verið að þessu í dálítinn tíma þá verður hún oft pirruð og fer jafn vel að gráta eða þá (þá eingöngu í bíl) að hún sofnar.

Einhvern veginn finnst mér þetta ekki allveg eðlilegt og velti fyrir mér hvort eitthvað sé að og þá hvað ég geti gert.

Með von um góð svör.
Áhyggjufull móðir.

Svar:

Svar til áhyggjufullrar móður.

Mér finnst allt benda til þess að dóttir þín sé ósköp eðlileg. Reyndar er rétt af þér að kanna það hvort hún er að bregðast við einhvers konar ertingu á húð eða sýkingu í eða við kynfæri. Þú getur annað hvort kannað sjálf hvort um óeðlilegan roða sé að ræða eða látið lækni kanna það. Hins vegar er langlíklegast að hún sé bara að bregðast við kynhvöt sinni. Þar sem kynlíf og kynhvöt eru enn í miklu þagnargildi og umræðan í dag ekki mikið á faglegum nótum eða upplýsandi, vita foreldrar almennt ekki mikið um að langflest börn bregðast við kynhvöt sinni frá því að þau geta farið að hreyfa sig. Hins vegar er það eins með börn og fullorðna að kynhvöt þeirra er missterk og þau eru misfljót að læra eða samþykkja þær takmarkanir sem foreldrarnir setja þeim í því að sýna kynhvöt sína. Persónuleiki þeirra hefur líka áhrif á það hversu auðsveip þau eru í því að tileinka sér boð og bönn samfélagsins í þessum efnum. Það er því misjafnt hversu augljóst það er að börn sinna kynhvöt sinni.

Allar þær lýsingar, sem þú gefur á hegðun dóttur þinnar eru vel þekktar hjá börnum sem fara ekkert í launkofa með það að sinna þessari þörf sinni. Hitt er svo annað mál að samfélagið á enn erfitt með að samþykkja þessa hegðun og venjulegast eru börn hér á landi það mikið klædd að þau geta ekki auðveldlega sinnt þessari þörf sinni. Þess vegna verður þessi hegðun dóttur þinnar meira áberandi og sker sig úr í umhverfinu. Það er því rétt af þér að leiðbeina henni hægt og rólega yfir í það að láta af þessu á almannafæri, þar sem hætta er á að í framtíðinni fái hún hörkuleg viðbrögð frá umhverfinu. Þú skalt ekki banna henni þetta og alls ekki segja henni að þetta sé ljótt, heldur beina huga hennar að öðrum hlutum, gjarnan vera góð við hana, taka hana í fangið, bjóða henni að leika við hana, eða annað, sem á jákvæðan hátt dregur hana frá þessari hegðun. Ekki viljum við að hún læri að kynhvöt sé eitthvað ljótt, sem ekki má sinna. Þú þarft ekki að sinna henni í langan tíma þegar þú gerir þetta, heldur aðeins nægilega lengi til þess að hugur hennar sé orðinn upptekinn af einhverju öðru. Þú skalt ekki búast við að hegðun hennar breytist hratt við þetta og eingöngu miða við að hún hafi lært, áður en hún byrjar í skóla, að í okkar siðmenningu fiktum við ekki við kynfæri okkar eða fróum okkur á almannafæri.

Gangi þér vel,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur.