Lamisil sveppakrem á meðgöngu?

Spurning:
Mig langaði til að fá nánari upplýsingar um hvort ég mætti nota Lamisil sveppakrem á fótsvepp en ég er ófrísk og komin 6 vikur á leið. Ég kynnti mér upplýsingar um lyfið í Lyfjabókinni en þar fannst mér meira verið að vara við að taka slíkar töflur á meðgöngu (ég skyldi það a.m.k. þannig) en ekki beint gefnar upplýsingar um notkun á kreminu. Með kærri þökk.

Svar:
Um 5% virka efnisins í Lamisil kremi frásogast í gegnum húð þannig að um mjög lítið magn er að ræða sem kemst inn í blóðrásina. Í íslensku Sérlyfjaskránni, sem er handbók um lyf gefin út af Lyfjastofnun og Lægemiddelkataloget sem er dönsk handbók um lyf, segir að óhætt sé að nota Lamisil útvortis á meðgöngu.  Í sambærilegum norskum og sænskum bókum segir að reynsla af notkun Lamisil krems hjá ófrískum konum sé það takmörkuð að ekki sé hægt að fullyrða neitt um skaðsemi þess fyrir fóstur. Ekkert hefur komið fram í dýrtilraunum sem bendir til að svo sé. Þeir segja því að forðast skuli þessa notkun. Ég þori því að fullyrða að óhætt er að nota lyfið ef farið er samkvæmt leiðbeiningum, þ.e.a.s. kremið er borið á sýkt húðsvæði í þunnu lagi, einu sinni á dag í 1-2 vikur.Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur