Laseraðgerðir til að fjarlægja húðflúr?

Spurning:
Sæl og takk fyrir góðan vef.
Mig langar að fá upplýsingar um laseraðgerðir til að fjarlægja húðflúr. Mig langar að fá mér eitt en ekki kannski að vera með það um sjötugsaldurinn :). Kemur stórt ör eða rauður flekkur eða verður húðin eins og hún var? Á hvaða verðbili eru slíkar aðgerðir? Svo er annað. Nú er hægt að fá húðflúr úr jurtalitum sem eiga að endast í 3-5 ár. Vitið þið hvort húðin verður söm eftir að liturinn hverfur? Vona að þið getið svarað mér.
Kær kveðja,
Ein 21 árs stúlka.

Svar:
Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.Húðin okkar skiptist í tvö lög – ytra lag eða hornlag (epidermis) og undirlag eða leðurhúð (dermis). Þegar húðflúr eru fest á líkamann eru notuð litarefni sem er sprautað djúpt í leðurhúðina. Litaragnirnar eru svo stórar að átfrumur líkamans, þ.e. þær frumur sem sjá um að fjarlægja aðskotaefni úr vefjunum, ná ekki að gleypa þær í sig og eyða þeim úr líkamanum. Húðflúrið verður mynd í leðurhúðinni sem sést í gegn um hornlagið. Þar sem frumubreytingar í leðurhúðinni eru litlar, helst húðflúrið nær óbreytt alla ævi.Húðflúr verður ekki fjarlægt nema með aðgerðum s.s. húðslípun, skuðaðgerð eða því sem algengast er að gera í dag – laser-ljósgeisla-meðferð. Ljósgeislameðferðin hefur þau áhrif að litaragnirnar eru brotnar niður í smærri einingar þannig að hluti myndarinnar dettur af sem hrúður en restina reyna átfrumur líkamans að ráðast á, gleypa í sig og fjarlægja úr líkamanum.

Til að fjarlægja húðflúr þarf nokkrar meðferðir og getur skiptir máli hvar á líkamanum það er, hvernig húðflúrið er á litinn, hversu stórt það er og einnig hvernig það var unnið, þ.e. hversu djúpt niður í húðina það nær og hvaða efni voru notuð. Einnig skiptir máli hversu langt er síðan húðflúrið var sett á líkamann. Húðflúr unnið með jurtalitum, dofna á um 3-5 árum en hverfur ekki algjörlega. Það getur því einnig þurft að eyða því.Ég ráðlegg þér að hugsa þig vel um áður en þú tekur ákvörðun um að láta setja á þig húðflúr. Mjög margir af þeim sem láta húðflúra sig sjá eftir því, fyrr eða síðar, og gildir það sérstaklega um ungar konur sem stundum gera þau mistök að láta húðflúra sig e.t.v. á áberandi stöðum, jafnt þar sem þau sjást ekki. Það verður ekki aftur snúið nema með miklum tilkostnaði.Til eru margar gerðir af límmyndum (rósir, fiðrildi, hauskúpur o.fl. o.fl.) t.d. í leikfangaverslunum – sem ég ráðlegg þér að setja á þig og prófa, til að finna hvernig þú ,,feel-ar" húðflúrið. Hafðu myndina á þér í nokkra daga og veltu þessu vel fyrir þér áður en þú tekur þína lokaákvörðun.Bestu kveðjur, Hrönn Guðmundsdóttir.