Latur skjaldkirtill eða?

Spurning:
Kæru doktorar!
Ég er að velta fyrir mér nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi eru litlu fingurnir á mér svo skrýtnir og búnir að vera í nokkrar vikur; þeir eru alltaf kaldari en restin af hendinni og alveg niður að úlnlið. Stundum eru þeir ískaldir og restin heit en stundum bara aðeins kaldari en restin af hendinni. Svo hef ég undanfarna daga eða u.þ.b. eina til tvær vikur vaknað með svakalegan bjúg á hægri hendi þannig að ég get ekki einu sinni tekið af mér hringana – ég fæ aldrei bjúg, er ekki of þung og borða mjög hollan mat. Hvað haldið þið að þetta geti verið?
Svo var ég líka að velta fyrir mér hvort hæsi gæti verið afleiðing af lötum eða ofvirkum skjaldkirtli? Og ég var líka að spá í, í sambandi við lyf við lötum skj.k. ef maður tekur of mikið inn hvort maður fengi þá einkenni ofvirks skj.k. og svo öfugt?
Kærar þakkir fyrir gagnlegan vef.
Kveðja Þumallína

Svar:
Sæl.
Latur eða vanvirkur skjaldkirtill getur valdið margvíslegum einkennum m.a. bjúg, vægri þygdaraukningu, hægðatregðu, hæsi, kulsækni og miklum blæðingum. Oftast eru einkennis s.s. bjúgurinn um allan líkamann, ekki staðbundinn við einn útlim. Sama gildir um kulsæknina. Greiningin er mjög auðveld og er gerð með blóðprufum þar sem skjaldkirtilshormónin eru mæld (oftast FT4 og TSH). Ef um vanvirkan skjaldkirtil er að ræða er meðferðin fólgin í að gefa skjaldkirtilslyf, s.k. thyroxin. Ef gefinn er of stór skammtur fær viðkomandi einkenni likt og um ofvirkan kirtil væri að ræða. Þetta er hægt að koma í veg fyrir með því að taka reglulega blóðprufur. Eftir að búið er að finna réttan skammt fyrir sjúklinginn dugar oft að mæla hormónagildin einu sinni á ári.

mbk,
Arna Guðmundsdóttir, lyflæknir