Legbotnshæð

Fyrirspurn:

Góðan daginn

Ég er komin 25 vikur og legbotnshæðin er að mælast 31 cm hjá mér. Ég er las einhversstaðar að hann ætti að vera í flúkti við vikurnar. Hvað þýðir það að legbotnshæðin sé svona mikið fram yfir vikufjölda? Er þetta í tengingu við stærð barnsins? Ég átti nefnilega yfir 20 marka barn síðast og hef áhyggjur á að þetta barn verði mjög stórt en börn í minni fjölskyldu eru almennt um 18-23 merkur við fæðingu. Man samt ekki eftir að legbotnshæðin hafi verið neitt óeðlileg síðast.

 

Svar

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Jú það er talað um að yfirleitt fylgi legbotnshæðin vikunum +/-.  Ef legbotnshæðin er óvenjuhá þá getur það verið vegna þess að barnið sé stórt eða óvenju mikið legvatn.  Oftast er þetta skoðað sérstaklega ef legbotninn heldur áfram að vera hár.  Þar sem þú ert aðeins komin 25 vikur getur þetta verið tilfallandi, það er oft á þessu tímabili sem kúlan tekur góðan vaxtakipp sem hefur kannski verið snemma hjá þér.  Einnig getur verið hlutfallslega mikið legvatn á þessum tíma meðgöngu sem síðan jafnast út.  Ég myndi ekki hafa áhyggjur af þessu strax – sjá hvernig legbotninn á eftir að vaxa og ef hann heldur áfram að vera hár verðurðu sennilega send í sónar seinna til að sjá hvort barnið er stórt eða hvort legvatnsmagnið er mikið.  En hafðu ekki áhyggjur ef þú gast átt 20 marka barn síðast þá geturðu það núna líka.

Gangi þér vel

Kristín Svala Jónsdóttir

Hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir

 

Kveðja