Legsig og ,,víð“ leggöng?

Spurning:
Kæri doktor.is. Mig langar að forvitnast hvað er hægt að gera við legsigi? Ég fæ alltaf 1 sinni í mánuði svona hálfgert kast þar sem myndast mikill þrýstingur í kviði og það er allt erfitt að td. standa, labba sitja, hafa hægðir og fleira. Ég á 3 börn og er 27 ára gömul og er búin að láta taka mig úr sambandi. Læknirinn nefndi við mig að ég væri með legsig og benti mér á grindarbotnsæfingar, líka vegna hversu opin ég er þarna niðri (legöngin).
Ég hef alla tíð verið mjög dugleg að gera æfingar en það hefur ekkert að segja og finnst mér þetta vera að versna mikið núna uppá síðkastið. Tilfinningin hefur líka minnkað og þetta er farið að hrjá mig andlega og líkamlega og hafa áhrif á samlíf okkar.  Er eitthvað hægt að gera fyrir mig svo við getum notið kynlísins aftur eins og við gerðum? Er til krem eða stílar sen hjálpa vöðvum legganganna að ganga aftur til fyrra horfs? Læknirinn benti mér á skurðaðgerð útaf legsiginu en lagar það eitthvað leggöngin? Ein sem er orðin þreytt

Svar:

Komdu sæl.
 
Það er erfitt að segja svona út frá þessum upplýsingum og án skoðunar hversu alvarlegt ástandið er, en það er greinilega nógu alvarlegt til þess að þú þurfir eitthvað að gera. 
Eins og þú sjálfsagt veist þá er svokallað leg- og blöðrusig sig á þessum líffærum þannig að þau ganga neðar í grindarbotninn en er fyrir þunganir. Orsök er tognun á bandvef og vöðvum í grindarbotni vegna þunga meðgöngunnar svo og vegna fæðingar og skiptir þar nokkru hvort þú hefur þurft að rembast mikið í fæðingu. Að auki er þetta að hluta til ættgengt.  Þú ert ung, en það kemur ekki fram hjá þér hvað er langt liðið frá síðustu fæðingu, en sé það ekki mjög langt, innan við tvö ár held að þú eigir talsvert góða möguleika á því að vinna þetta upp að verulegu leyti með grindarbotnsæfingum eins og reyndar læknir þinn hafði jú sagt við þig.  Það er ekki hægt að kenna grindarbotnsæfingar gegnum netið svo vel sé, heldur þarftu að hitta hjúkrunarfræðing, sjúkraþjálfara, íþróttakennara, ljósmóður eða lækni sem fer yfir grunnatriði þessa með þér og jafnframt er hægt að kaupa Aquaflex hjálpartæki sem getur hjálpað konum að gera grindarbotnsæfingarnar örugglega rétt.  Grindarbotnsæfingar   Með réttri beitingu ættir þú að verða góð en verðir þú það ekki á nokkrum mánuðum þarft þú klárlega að tala aftur við lækni m.t.t. einhverra frekari aðgerða s.s. aðgerð til að laga legsigið.  Þú talar einnig um að vöðvar legganganna séu slappir og þau ,,víð“ legsigsaðgerð hjálpar ekkert varðandi það, en þess ber að geta að talað er um að það taki konur sjö ár að ganga alveg til baka og í sitt fyrra horf eftir fæðingu og get ég alveg staðfest það sjálf og það er ekki fyrr en tveimur til þremur árum eftir fæðingu að maður fer að finna virkilega að leggöngin og mjaðmagrindin hafi gengið saman. 
 
Með góðri kveðju,
 
Jórunn Frímannsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
www.Doktor.is 
 
 
Þessi grein er ekki fullunnin og inn í hana vantar allar myndir, en ég sendi hana samt með:

 

Grindarbotnsþjálfun

Þvagleki

 

Þvagleki við áreynslu

Þvagleki við áreynslu er ósjálfráður og verður við líkamlega áreynslu, t.d. við hósta, hnerra, hlátur, hlaup, hopp og við að lifta þungu.  Þetta er fyrst og fremst vandamál kvenna og getur aukist í tengslum við meðgöngu og fæðingu, við tíðahvörf og almennt með aldri.

 

Helstu ráð við áreynsluþvagleka eu þessi:

–         skurðaðgerð

–         lyfjameðferð

–         hormónameðferð

–         raförvun

–         þjálfun grindarbotns

Þjálfun grindarbotnsvöðva er einföld, ókeypis og án aukaverkana ef rétt er að farið.  Ætti því að reyna hana á undan öðru.  Allar konur ættu að gera grindarbotnsævingar öðru hverju alla ævi.  Einkum er mikilvægt að þjálfa grindarbotnsvöðvana vel eftir fæðingu.  Á þann hátt má fyrirbyggja vandamál, tengd slökum grindarbotni, s.s. þvagleka við áreynslu.

 

MYND

 

 

Hvar eru grindarbotnsvöðvarnir?

Grindarbotnsvöðvarnir eru neðst í mjaðmagrindinni og mynda þar nokkurs konar gólf grindarholsins.  Þeir eru umhverfis þvagrás, leggöng og endaþarm og eiga ásamt hringvöðvunum að stjórna opnun og lokun þessara líffæra.  Auk þess halda þeir uppi þvagrás, þvagblöðru og legi.  Grindarbotnsvöðvarnir þurfa að standa þann aukna kviðarholsþrýsting sem verður við áreynslu.  Mörgum finnst torvelt að þjálfa réttu vöðvana þar sem erfitt er að sjá og finna hvar þeir eru.  60 konum voru kenndar grindarbotnsæfingar í tilraunaþjálfun.  Þá kom í ljós að tæpur helmingur þeirra, sem höfðu gert grindarbotnsæfingar áður, hafði gert þær rétt.

 

 

Algengar villur:

Margar konur spenna rass-, lær-, kvið-, eða öndunarvöðva í stað grindarbotnsvöðva.  Einstaka kona þrýstir niður, rembist, en það hefur gagnstæð áhrif.

 

Réttur vöðvasamdráttur:

Þegar þú spennir grindarbotnsvöðvana rétt átt þú að finna botn mjaðmagrindar lyftast aðeins upp og inn á við.  Þetta verður án meðhreyfinga í efri hluta líkamans, mjaðmagrind eða fótum.  Andaðu eðlilega á meðan þú spennir vöðvana.

 

 

Grindarbotnsþjálfun fer þannig fram:

Byrjaðu á því að finna réttu vöðvana:

Próf A: Reyndu að stöðva bununa við þvaglát, en það er auðveldast í lokin.  Þegar þú finnur að þú hefur náð tökum á þessu, getur þú fundið hversu mikið þú átt að taka á í æfingunum með því að reyna að hætta í miðri bunu.
Próf B:  Stattu með fætur sundur og styddu annarri hendi á grindarbotnsvöðvana. Ef þú spennir vöðvana rétt átt þú að finna grindarbotninn lyftast frá hendinni en síga niður þegar þú slakar á.  Mikilvægt er að slaka á milli vöðvasamdrátta.

 

MYND

 

Þegar þú hefur náð að beita vöðvunum rétt, spennir þú þá eins og þú getur án þess að nota aðra vöðva og fjölgar samdráttum smám saman upp í 8-12 í hvert sinn sem þú æfir.
Reyndu smám saman að halda hverjum vöðvasamdrætti í um 6-8 sekúndur.
Kröftug grindarbotnsþjálfun:  Þegar þú hefur náð góðu valdi á vöðvasamdrætti getur þú reynt að spenna vöðvana enn betur 3-4 sinnum með hraðri spennu upp á við ápur en þú slakar á.

 

Teldu þannig:

Spenna – halda – halda aðeins betur. 

Hraðar: upp, upp, upp – slaka.

Grindarbotnsæfingar á að gera 3x á dag 8 – 12 sinnum hverju sinni til styrktar.  Síðan má fækka æfingunum til að viðhalda vöðvastyrknum.

 

 

Góðar stöður við þjálfun grindarbotnsvöðva

Þessar stöður eru valdar til þess að þú getir náð sem bestum vöðvasamdrætti.  Veldu þá stóðu sem þér finnst heppilegust hverju sinni.

 

 

MYND

 

Stattu með fætur sundur og hendur á rassvöðvum.  Gættu þess að þeir lyftist ekki þegar þú lyftir grindarbotnsvöðvunum upp og inn.

 

 

MYND

Liggðu á maganum og dragðu annan fótinn að þér.  Spenntu grindarbotnsvöðvana upp og inn.

 

 

MYND

Liggðu á hnjám með iljar saman og hnén vel sundur, hendur undir enni.  Spenntu grindarbotnsvöðvana upp og inn.

 

 

MYND

Sestu með krosslagða fætur.  Hallaðu þér aftur á hendur með beint bak.  Spenntu grindarbotnsvöðvana upp og inn.

 

 

MYND

Stattu með beygju í mjöðmum og hnjám með bak beint og hendur á lærum.  Spenntu grindarbotnsvöðvana upp og inn.

 

ATH!

Við upphaf grindarbotnsþjálfunar finnur einstaka kona fyrir hita, svita, auknum hjartslætti og flökurleika.  Dragðu þá úr áreynslunni og mundu að anda eðlilega.

 

MYND

Spenntu alltaf grindarbotnsvöðva þegar þú þjálfar magavöðva eða lyftir þugnu

 

MYND

Ekki hætta  líkamsþjálfun vegna þvagleka.  Mundu að margar konur eru í sömu stöðu og þú!  Veldu hreyfingu eins og t.d. röska göngu, sund, hjólreiðar eða leikfimi án hopps og hlaups (“low impact aerobics”)  meðan þú þjálfar grindarbotnsvöðvana.  Ef þú finnur ekki bata eftir 2-3 mánaða reglubundna þjálfun, ættir þú að leita læknis og sjúkraþjálfara til frekari skoðunar