Leikfimi á meðgöngu?

Spurning:

Sæl Ágústa.

Ég var að velta fyrir mér hvort þú hefðir einhverjar upplýsingar um hvar boðið er upp á leikfimi fyrir barnshafandi konur. Ég er 25 ára, geng með fyrsta barn (komin tæpa 5 mán. á leið) og hef stundað líkamsrækt reglulega fram að því að ég varð ófrísk, frá því hefur orkan verið of lítil til að halda áfram af sama krafti og áður!

Svar:

Sæl.

Því miður hef ég ekki upplýsingar um hvar boðið er upp á leikfimi fyrir barnshafandi konur. Við í Hreyfingu hættum að bjóða upp á slíka leikfimi fyrir nokkrum árum þar sem þróunin hefur verið sú að barnshafandi konur eru farnar að halda sínu striki hvað líkamsþjálfun varðar, þ.e. halda áfram að stunda þær æfingar sem þær eru vanar og draga svo smám saman úr álaginu eftir því sem líður á meðgönguna. Konur sem eru frískar á meðgöngu ættu tvímælalaust að halda áfram að hreyfa sig reglulega svo lengi sem meðgangan er eðlileg. Þú verður örugglega fljót að ná upp orkunni aftur þegar þú byrjar að hreyfa þig. Byrjaðu rólega og hlustaðu á líkama þinn. Það er engin ástæða til að reyna að æfa af sama krafti og áður en þú varðst barnshafandi, hreyfðu þig bara að þeim mörkum sem þú þolir vel og hugsaðu um tímabil meðgöngunnar sem tímabil sem þú ert að viðhalda þínu líkamlega formi en ekki að ná frekari árangri.
Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari