Líkur á getnaði?

Ég er 20 ára gamall strákur sem er mjög stressaður yfir því að barna kærustuna mína. Ég stundaði óvarið kynlíf með henni fyrir svona 30-34 tímum en fékk það ekki inn í hana, var aldrei neitt nálægt fullnægingu. Ég er samt sannfærður um að þessi vökvi sem kemur á undan sáðlosi, sem getur innihaldið sæðisleifar, hafi farið inn. Ég tel það ekkert óvenjulegt miðað við óvarið kynlíf og ég veit áhættuna sem fylgir óvörðu kynlífi, en ég er alveg sjúklega stressaður yfir mögulega yfirvofandi getnaði. Ég er í alvörunni að missa svefn yfir hvað það eru „litlar líkur“ (sem eru kannski ekkert litlar?) á að getnaður átti sér stað. Hún er fullviss um að hún verði ekki ólétt af þessu.

Hverjar eru líkurnar á getnaði miðað við mínar aðstæður? Líka, hvenær er best að nota óléttupróf eftir kynlífið, er það 3-5 dagar? Sé fóstureyðing eitthvað sem hún vill ekki gangast undir, hvaða aðrir möguleikar eru í stöðunni til þess að koma í veg fyrir að við eignumst barn?

Ég leitaði smá eftir svipuðum fyrirspurnum en fann ekki mikið. Takk fyrirfram.

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir getnað er eins og þú veist að nota fullnægjandi getnaðaðarvarnir. Líkur á þungun er ekki hægt að reikna út með neinni sérstakri formúlu. Það fer til dæmis eftir því hvar kærastan þín er í tíðahringnum og hversu „frjó“ hún er og svo fer það líka eftir „gæðum“ sæðisins hjá þér. Það eina í stöðunni er að anda djúpt og taka þungunarpróf. Þau eru býsna áreiðanleg og almennt er talað um að það sé marktækt 2 vikum eftir getnað eða um það bil þegar konan  ætti að byrja á blæðingum.

Ákvarðanir um framhaldið verðið þið að taka þegar þar að kemur. Slíkar samræður er reyndar gott að eiga ef par er í sambandi svo báðum aðilum sé ljóst hvað hinn vill komi upp ótímabær þungun.

Gangi ykkur vel