Lítill skeggvöxtur?

Spurning:
Ég er 50 ára karl og er að velta fyrir mér hvað getur valdið því að mér vex frekar lítið skegg.  Skeggvöxturinn er yfirskegg og hringinn niður á höku og einnig bartar niður á kjálka en skegglítið á kjálkunum og á hálsi. Eru til lyf sem örva skeggvöxt? Hvað með íslenska náttúrulyfið SagaPro, er óhætt að taka það inn til að sjá hvort það hefur áhrif? Ég er frískur en hef of háan blóðþrýsting sem ég tek lyf við.

Svar:
Það er eins með skeggvöxt og annað að hann er ákaflega einstaklingsbundinn.  Sumir eru einfaldlega þannig gerðir að þeim sprettur lítt grön. Þetta er jafnvel ættgengt. Þekktastur skegglítilla var að sjálfsögðu hinn spakvitri Njáll á Bergþórshvoli. Hlaut hann nokkra háðung fyrir lítinn skeggvöxt. Í þá daga löngu fyrir tíma Gillette og annarra góðra tóla til raksturs voru flestir karlmenn loðnir í andliti, enda örugglega ekki notalegt að skafa framan úr sér með misbeittum hnífkutum.  Í dag þegar langstærsti hluti karlmanna eyðir talsverðum tíma og fyrirhöfn á hverjum degi við að raka sig til að losna við skeggið, ætti lítill skeggvöxtur ekki að vera neitt vandamál. Hann er alls enginn vottur um að neitt sé að. Margir myndu vafalaust öfunda þig af skeggleysinu.  Engin lyf eru á markaði hér til að örva skeggvöxt.  Ég sé ekki að SagaPro ætti að vera þér neitt hættulegt, en ég hef enga trú á að skeggvöxturinn örvist við það.  Ég ráðlegg þér þvi að hafa engar áhyggjur af skeggleysinu.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur