Losna ekki við fitu af maganum

Spurning:

Sæl Ágústa.

Ég á í vandræðum með magann á mér, ég æfi mikið og borða hollan mat en losna ekki við spik framan af maganum á mér. Ég er 170 cm. á hæð og 64-65 kíló en langar að losna við u.þ.b. 4 kíló en það gengur ekki, sama hvað ég hjóla mikið og hamast í ræktinni. Ég þolþjálfa 3 sinnum í viku, 90 mínútur í senn, styrktarþjálfa einu sinni í viku og hjóla í vinnuna hálftíma á dag, alls 2,5 klst. á viku, lágmark. Hvað á maður að gera þegar fitan fer ekki?

Eru til einhverjar góðar megrunarpillur? Ég er farin að örvænta og orðin þreytt á að gera þetta á skynsamlega mátann, þ.e. ég hef fylgt þessu í u.þ.b. eitt ár og er komin í gott form, þannig séð, þó ég sé enn með þessi fúlu aukakíló. Ég er að auki að fara á sólarströnd um páska og nenni ekki að vera með slapandi maga í bíkíníi.

Hvað á ég að gera?

Ein örvæntingarfull.

Svar:

Sæl.

Það sem ég myndi ráðleggja þér er að brjóta aðeins upp æfingamynstrið hjá þér til að koma í veg fyrir stöðnun. Prófaðu að hlaupa í 40 mín. 4x í viku, fyrst hita upp í 5 mín. með röskri göngu og svo að hlaupa hratt í mínútu og ganga í mínútu til skiptis í 30 mín. og ganga svo aftur síðustu 5 mínúturnar. Gerðu svo alhliða styrktaræfingar 2x í viku. Nú veit ég ekki hvað þú hefur verið að borða en ef þú getur gert einhverjar breytingar á mataræði s.s. að sleppa sælgæti (e.t.v. einn nammidag í viku) og reyna að halda þig við 1600-1700 h.e. á dag. Með þessu móti ættirðu að ná af þér 4 kg á svona 1-2 mánuðum. En svona í lokin þá er spurning hvort þú ert ekki bara fín eins og þú ert? Ef þú ert vöðvastælt og ert í þessari þyngd og hæð sem þú nefnir, ertu innan kjörþyngdar og því í góðum málum. Er ekki mikilvægara að vera heilbrigð og njóta lífsins en að reyna stöðugt að verða þvengmjó þegar líkamanum er það e.t.v. ekki eðlilegt?

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari.