Lyf gegn hárlosi?

Spurning:

29 ára – Karl

Um hármeðulin Propecia og Rogaine:

1. Rogaine: Nú er talað um að þetta meðal virki á 1/3 eða 1/4 þeirra sem það taka og að niðurstöður sjáist ekki fyrr en eftir þónokkra mánuði. Spurning varðandi

Rogaine:

Virkar Rogaine á þann veg að það hægi á (eða stöðvi) hárlosi punktur og basta, eða getur það jafnframt aukið að einhverju leyti hárvöxt, sem tapaður er ?!!

2. Propecia: Sama spurning varðandi þetta lyf, þ.e. hægir lyfið eða stöðvar hárlos og síðan ekki söguna meir, eða má maður búast við að töpuð hár birtist aftur ?!!

Þess skal getið að sendandi þjáist ekki af miklu hárlosi, það er aðeins að þynnast að ofanverðu og gaman væri að fá svör við þessu.

Svar:

Lyfin Regaine (það er skráð undir því nafni hér) og Propecia virka á ólíka vegu þó notuð séu við sama kvilla.

Hvernig Regaine virkar er ekki vitað fyrir víst, en Propecia hindrar breytingu karlhormónsins testósterón í díhýdrótestósterón, sem er til staðar í auknu magni í hársekkjum karlmanna með hártap.

Við útvortis notkun lyfsins Regaine sést aukinn hárvöxtur fljótlega bæði hjá konum og körlum. Um er að ræða bæði fjölgun hára og þykkari hár. Þessi aukning er greinileg eftir 6-8 vikur og nær hámarki eftir 12-16 vikur.

Bæði lyfin auka hárvöxt og draga úr hárlosi.

Regaine er bæði ætlað konum og körlum, en Propecia eingöngu körlum.

Regaine er notað útvortis en Propecia tekið inn.

Regaine fæst án lyfseðils en Propecia eingöngu út á lyfseðil.

 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur