Má bólusetja ófrískar konur?

Spurning:
Ég er með miklar áhyggjur síðan í morgun, þegar ég fór í bólusetningu. Ég var spurð hvort ég væri nokkuð ólétt og ég sagðist ekki vita það (búin að taka þungunarpróf sem var gallað, því ekkert svar kom). Þá sagði hjúkrunarfræðingurinn: Það má nefnilega ekki bólusetja ófrískar konur. Hér kemur spurningin: Nú veit ég ekki hvort ég sé ólétt og hafði ekki tækifæri til að spyrja hana hvað ef svo væri því aðrir í vinnunni voru nálægt. Ég vil spyrja: Hvað ef ég væri ólétt? Síðasta laugardag fékk ég túrverk í einn dag, svo blæddi aldrei neitt og ég fæ svona vægan túrverk stundum sem gengur strax yfir. Ég fæ þetta á hverjum degi. Ég er með svo miklar áhyggjur því ég hef engum, ekki einu sinni manninum, sagt að ég hafi tekið þungunarpróf og nú hef ég tvisvar ekki notað neina verju eftir að ég hætti á pillunni. 
Með fyrirfram þökk, ein áhyggjufull.

Svar:
Sæl.
Almenna reglan er sú að bólusetja ekki barnshafandi konur vegna hugsanlegra áhrifa á fóstur en það fer eftir því hvaða bóluefni var um að ræða og hversu langt þú ert gengin hvort einhver áhætta fylgi bólusetningunni. Það er t.d. mjög hættulegt að bólusetja við rauðum hundum á meðgöngu og næstu 3 mánuði áður en getnaður á sér stað en inflúenslubólusetningu fylgir mun minni áhætta. Sértu einungis gengin 3-4 vikur er fóstrið í lítilli hættu ef einungis var um inflúensubólusetningu að ræða en hafi verið um eitthvert annað bóluefni að ræða skaltu tala við lækninn þinn og spyrja út í áhættuna því hún er mismunandi eftir bóluefnum.
Vona að þetta verði í lagi.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir