Má ég fresta blæðingum með pillunni?

Spurning:

Ég er 17 ára stelpa og mig langar til að fræðast um pilluna og tíðablæðingar. Ég hef einu sinni haldið áfram að taka pilluna þegar ég átti að gera hlé til að sleppa úr blæðingum. (nóvember 1999). Ég er á leið til sólarlanda og samkvæmt öllu þá verð ég á blæðingum í fríinu. Ég er að spá í það hvort ég gæti sleppt því aftur að taka hlé á notkun pillunnar og byrjað strax á næsta skammti?
Er það nokkuð hættulegt?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Best er að halda reglulegum blæðingum en það er í lagi að seinka þeim ef mikið liggur við, t.d. utanlandsferð eða brúðkaup.

Það er gert þannig að í stað þess að taka hlé á inntöku taflanna þá er byrjað strax á næsta spjaldi. Það geta komið minniháttar blæðingar en þá er samt haldið áfram að taka töflurnar. Haldið er áfram að taka töflurnar í jafn marga daga og á að fresta blæðingunum. Ef til dæmis á að fresta blæðingum í 10 daga þá eru töflurnar teknar í 10 daga (10 fyrstu töflurnar af næsta spjaldi) og síðan er hætt (restinni af töflunum á því spjaldi er hent, lyfjaverslanir farga þeim) og hléið tekið. Þá hefjast tíðablæðingarnar. Svo eftir hléið er byrjað á nýju spjaldi.

Ekki má fresta tíðablæðingum lengur en í 21 dag. Sé þeim frestað lengur er hætta á óreglulegum blæðingum. Aðeins skal nota þennan möguleika þegar mikið liggur við og skal það þá gert í samráði við lækni.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur