Má ég taka inn vítamín og prótíndrykk með Roaccutan?

Spurning:

Sæll.

Ég er á Roaccutan lite, þ.e. tek lyfið í 1 viku , tek svo hlé í 3 vikur. Ég veit að ég á að forðast A-vítamín á meðan ég er á lyfinu, en ég þarf að
forðast önnur vítamín eða efni?

Fyrir utan hefðbundinn mat tek ég einn
prótín- eða fæðuígildisdrykk (Myoplex lite eða Nitrotech), glútamín,
l-carnitine, króm, lið-aktín, acidophilus, fjölvítamín og steinefnatöflu án A- og D vítamína, járn, zink, hvítlauk, B-, D- og E-vítamín. Gæti eitthvað af þessu verið skaðlegt samhliða meðferðinni?

Kærar þakkir.

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Þetta á að vera allt í góðu lagi. Þú mátt ekki taka sýklalyfið tetracýklín og ekki heldur nota staðbundin acne lyf, ásamt því að þú skalt forðast A-vítamín. Lágskammta prógesterón getnaðarvarnartöflur á að forðast líka þar sem áhrifin geta minnkað vegna milliverkana við ísótretínóín. Annars er margt sem þarf að varast varðandi lyfið og læt ég fylgja með varúðarkafla lyfsins úr Sérlyfjaskrá.

Varúð: Roaccutan er skráð með ábendinguna: „Acne vulgaris á háu stigi, sem ekki hefur svarað annarri lyfjameðferð.“ Eingöngu sjúklingar með þennan sjúkdóm mega nota lyfið, og eingöngu þegar meðhöndlunin er í umsjá læknis með sérþekkingu á þessum sjúkdómi og meðferð við honum. Allar upplýsingar um lyfið skulu innihalda upplýsingar um að það hafi fósturskaðandi áhrif og að því eigi að nota örugga getnaðarvörn á meðan á meðferð stendur og í minnst 1 mánuð eftir að meðferð lýkur. Þar sem þrymlabólur (acne) eru andrógen háður sjúkdómur á að forðast getnaðarvarnartöflur sem innihalda andrógen prógestagenefni, t.d. töflur sem innihalda 19-nortestósterón (norsteróíð), sérstaklega ef fram koma kvensjúkdóma-innkirtla vandamál. Verði þungun á meðferðartíma er ráðlagt að framkvæma fóstureyðingu. Mæla skal lifrar- og nýrnastarfsemi með lífefnafræðilegum rannsóknum 1 sinni í mánuði á meðan á meðferð stendur. Grunngildi lípíða í blóði á einnig að mæla fyrir meðferð, einum mánuði eftir að meðferð hefst og við lok meðferðar. Forðast skal að hrufla húð á meðan á meðferð stendur og í 5-6 mánuði eftir að henni lýkur vegna hættu á myndun ofvaxtar á óvenjulegum svæðum. Forðast skal að fjarlægja hár með vaxi á meðan á meðferð stendur og í 5-6 mánuði eftir að henni lýkur vegna hættu á húðbólgu. Gæta skal sérstakrar varúðar hjá sjúklingum með sykursýki, offitu, áfengisvandamál, sjúkdóma sem hafa áhrif á efnaskipti fitu, skerta lifrar- eða nýrnastarfsemi, hjarta-blóðrásarsjúkdóma og of háa blóðfitu. Hjá þessum sjúklingum getur verið nauðsynlegt að fylgjast oftar með viðeigandi rannsóknargildum. Sjúklingar mega ekki gefa blóð á meðan á meðferð stendur og ekki í 1 mánuð eftir að meðferð með Roaccutan lýkur. Á umbúðirnar skal setja eftirfarandi varúðarsetningu: Má ekki taka á meðgöngu. Lyfið veldur alvarlegum fósturskaða og því mega konur á barneignaraldri ekki taka lyfið, nema að þær noti öruggar getnaðarvarnir á meðan á meðferð stendur og í minnst 1 mánuð eftir að meðferð lýkur. Ef þungun verður á þessum tíma er fóstureyðing ráðlögð. Greint hefur verið frá þunglyndi, geðsjúkdómaeinkennum og í sjaldgæfum tilvikum sjálfsvígstilraunum og sjálfsvígum hjá sjúklingum á Roaccutan meðferð. Því skal gæta sérstakrar varúðar hjá sjúklingum sem hafa sýnt einkenni þunglyndis og upplýsa skal alla sjúklinga um að leita til læknis síns ef fram koma einkenni þunglyndis vegna meðferðarinnar, ef þörf krefur.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur