Má taka Seroxat og Rivotril á meðgöngu?

Spurning:

Sæll.

Mig langar til að vita hvor óhætt sé að taka lyfin Seroxat og Rivotril 0,5 ef kona er ófrísk, ef ekki hversvegna?

Hvaða áhrif getur það haft á fóstrið í byrjun meðgöngu ? Eru einhver sambærileg lyf sem hægt væri þá að taka í staðin fyrir þessi lyf?

Með von um skjót svör
Takk

Svar:

Seroxat (paroxetín) á ekki að nota á meðgöngu né við brjóstagjöf nema að læknir telji það áhættunnar virði. Það er vegna þess að lyf eru aldrei prófuð á börnum eða vanfærum konum og því er mjög takmörkuð reynsla af lyfinu við þær aðstæður.

Rivotril (klónazepam) veldur vanskapnaði í dýratilraunum og ætti ekki að nota það á fyrsta þriðjungi meðgöngutímans. Notkun lysins á síðari hluta meðgöngunnar er líka varasöm. Lyfið skilst einnig út í brjóstamjólk og ætti ekki að nota það ef viðkomandi hefur barn á brjósti. Þó svo að ekki sé hægt að yfirfæra dýratilraunir beint yfir á menn þá gefur þetta vísbendingu og ætti því ekki að nota þetta lyf í kringum megöngu og brjóstagjöf nema að læknir telji það nauðsynlegt. Alltaf skal láta lækni vita um þungun áður en lyf eru ákveðin.

Það er til mikið af geðdeyfðar- og flogaveikilyfjum og flest þeirra eru varasöm eða hafa takmarkaða reynslu í vanfærum konum og ætti því að ræða notkun þessarra lyfja við lækni sem metur þá hvert einstakt tilfelli.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur